Börn. Barnaverndarmál.

(Mál nr. 6203/2010)

A kvartaði f.h. B yfir málsmeðferð barnaverndaryfirvalda í sveitarfélaginu X, viðbrögðum og málsmeðferð Barnaverndarstofu í tilefni af athugasemdum við starfshætti sveitarfélagsins og ákvörðun félags- og tryggingamálaráðuneytisins vegna erindis þar sem gerðar voru athugasemdir við starfshætti beggja stofnana. Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi, dags. 14. júlí 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður skildi kvörtunina með þeim hætti að ekki væru gerðar athugasemdir við að mál dætra B hefði verið kært til lögreglu heldur væri A ósátt við framgöngu sveitarfélagsins, þar á meðal þá ákvörðun barnaverndarnefndar að vista dæturnar utan heimilis. Þegar atvik málsins voru virt í heild sinni og þá sérstaklega haft í huga að stjúpfaðir stelpnanna, sem hafði verið sakaður um kynferðislegt ofbeldi gagnvart annarri þeirra, væri sambýlismaður B og því heimilismaður á heimili þeirra og hann vék ekki af heimilinu þegar málið kom upp, taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við það á grundvelli meðalhófsreglu að barnaverndaryfirvöld í sveitarfélaginu hefðu ekki beitt vægari úrræðum 24. gr. laga nr. 80/2002, sem er beitt með samþykki foreldra, frekar en úrræðum 25. gr. sem er beitt án samþykkis. Í ljósi þess hvernig atvikum var háttað taldi umboðsmaður sig ekki heldur hafa forsendur að lögum til þess að gera athugasemd við niðurstöður Barnaverndarstofu og ráðuneytisins í málinu um að gera ekki athugasemd við að börnin hefðu verið vistuð utan heimilisins. Umboðsmaður taldi jafnframt að þar sem vistunin hefði einungis staðið yfir í tvo daga og B fengið umráð þeirra aftur í kjölfarið hefði sjónarmiða um meðalhóf verið gætt. Þá taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemd við þá afstöðu Barnaverndarstofu og ráðuneytisins að ekki hefði verið ástæða til að gera athugasemd við vinnubrögð sveitarfélagsins þrátt fyrir að skólasókn og tómstundaiðkun hefðu fallið niður þá tvo daga sem vistunin varði. Vegna athugasemdar við að börnin hefðu ekki verið vistuð hjá aðstandendum tók umboðsmaður fram að í lögum nr. 80/2002 væri ekki gert ráð fyrir að börn væru vistuð á grundvelli 25. gr. laganna heima hjá aðstandendum. Vegna athugasemdar við að vistunin hefði brotið gegn 67. gr. stjórnarskrár benti umboðsmaður á að skýr lagaheimild væri fyrir vistun barna utan heimilis í 25. gr. laga nr. 80/2002. Þá fékk umboðsmaður ekki annað séð en að barnaverndaryfirvöld hefðu veitt stúlkunum tveimur, móður þeirra og stjúpföður aðstoð. Hann taldi sig ekki hafa forsendur til þess að fullyrða að sú aðstoð hefði verið of lítil eða átt að koma fyrr til. Í ljósi alls þessa komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til að gera athugasemd við það að félags- og tryggingamálaráðuneytið hefði fallist á þá niðurstöðu Barnaverndarstofu að ekki hefði verið tilefni til að gera athugasemd við vinnslu málsins hjá sveitarfélaginu. Með tilliti til þess að félags- og tryggingamálaráðuneytið hafði þegar gert athugasemdir við málshraða Barnaverndarstofu í málinu taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast út af því atriði.

Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að aðhafast frekar út af kvörtun A og lauk málinu en tók fram að kvörtunin og fleiri erindi hefðu orðið sér tilefni til að taka til skoðunar hvort rétt væri að hefja frumkvæðisathugun, sbr. 5. gr. laga nr. 85/19997, á því hvernig stjórnvöld stæðu almennt að beitingu úrræða utan heimila samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Hann hefði hins vegar ákveðið að bíða með að taka ákvörðun um það þar sem ekki lægi fyrir hvaða áhrif nýsamþykktar breytingar á lögum nr. 80/2002 myndu hafa á framkvæmd þessara mála.