Eftirlit stjórnsýsluaðila.

(Mál nr. 5971/2010)

A kvartaði yfir áliti nefndar um dómarastörf, annars vegar vegna þeirrar ákvörðunar nefndarinnar, sem birtist í áliti hennar, að vísa frá kvörtun hans og hins vegar niðurstöðu nefndarinnar í sama áliti um hæfi tiltekins nefndarmanns til setu í nefndinni við meðferð á máli A. Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um kvörtun A með bréfi, dags. 14. júlí 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Á meðan á meðferð málsins stóð bárust umboðsmanni upplýsingar um að innanríkisráðuneytið hefði framsent nefnd um dómarastörf beiðni A um endurupptöku málsins hjá nefndinni. Í ljósi þess taldi umboðsmaður ekki uppfyllt skilyrði til að taka erindið til frekari meðferðar að svo stöddu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, en tók fram að ef A teldi sig enn órétti beittan að fenginni niðurstöðu nefndarinnar gæti hann leitað til sín á ný vegna afgreiðslu á endurupptökubeiðninni en einnig vegna umrædds álits og myndi þá ekki verða litið svo á að ársfrestur samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 væri liðinn. Það væri þó háð því skilyrði að A leitaði strax til umboðsmanns í kjölfar niðurstöðu nefndarinnar.