Félagsþjónusta sveitarfélaga.

(Mál nr. 6480/2011)

A kvartaði yfir því að mismunun væri fólgin í fyrirkomulagi greiðslna húsaleigubóta eftir því hvort um væri að ræða námsmann sem leigði herbergi í íbúð á heimavist eða stúdentagörðum annars vegar eða í íbúð „úti í bæ“ hins vegar. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 14. júlí 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í gögnum frá A og símtali hans við starfsmann umboðsmanns kom fram að félagsmálanefnd viðkomandi sveitarfélags hefði ekki tekið neina ákvörðun í máli hans og að hann hefði ekki leitað til æðra stjórnvalds vegna málsins. Umboðsmaður taldi því rétt að A fengi umsókn sína um húsaleigubætur formlega afgreidda hjá félagsmálanefnd sveitarfélagsins og kærði hana síðan til úrskurðarnefndar félagsþjónustu, væri hann ósáttur við niðurstöðuna, sbr. 16. gr. laga nr. 138/1997, áður en hann leitaði til sín vegna málsins.