Fjarskipti.

(Mál nr. 6525/2011)

A kvartaði yfir skorti á eftirliti með takmörkunum fjarskiptafyrirtækja á aðgangi neytenda að upplýsingum á internetinu. Í erindinu kom fram að kvörtunin beindist að innanríkisráðuneytinu þar sem eftirlit með rekstraraðilum á sviði fjarskipta félli undir starfssvið þess. Þá fylgdi erindinu útprentað, nafnhreinsað eintak af ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 8/2011 vegna lokunar á aðgangi að tilteknum heimasíðum. Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um málið með bréfi, dags. 18. júlí 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Hvorki varð ráðið af kvörtun A né ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar hvort A hefði átt aðild að umræddu stjórnsýslumáli og því var óljóst hvort sú rangsleitni sem hann taldi hafa átt sér stað beindist gegn honum, en slíkt er skilyrði þess að aðili geti lagt fram kvörtun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997. Jafnframt varð ekki ráðið af gögnum málsins hvort umrædd ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar hefði verið borin undir úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála innan þess frests sem mælt er fyrir um í lögum nr. 69/2003, sbr. 13. gr. laganna, en slíkt er skilyrði þess að umboðsmaður geti fjallað um stjórnvaldsákvörðun á grundvelli kvörtunar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Af kvörtun A var enn fremur ekki ljóst hvort hann hefði átt einhver samskipti við innanríkisráðuneytið vegna málsins, en til að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun eða athöfn stjórnvalds í máli þess sem kvörtun ber fram, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Þá fylgdu engin gögn með kvörtuninni sem vörpuðu frekara ljósi á málið. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að taka erindið til frekari athugunar.