Meinbugir á lögum.

(Mál nr. 6453/2011)

Samtökin A kvörtuðu yfir því að meinbugir væru á ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. nr. 151/2010. Í kvörtuninni kom fram að A teldu ákvæðið, sem veitti heimild til endurútreiknings á þegar greiddri kröfu með vöxtum Seðlabanka Íslands, ekki standast meginreglur íslenskra laga um bann við afturvirkri lagasetningu og að tilvist kröfu falli niður við greiðslu kröfunnar. Þá töldu A að framkvæmd við útreikninga hjá bönkunum ætti sér ekki skýra lagastoð í ákvæðinu og að lögin stæðust ekki bann við ójafnri samningsstöðu neytenda og betri rétt neytenda, sbr. lög nr. 38/2001, lög nr. 121/1994, og lög nr. 57/2005. Í kvörtuninni var þess óskað að umboðsmaður hæfi sjálfstæða rannsókn á lögum nr. 151/2010 þannig að þau yrðu borin saman við framangreind lög og önnur þau lög er málið kynnu að varða, sem og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og nánar tilgreindar Evróputilskipanir er innleiddar hefðu verið hér á landi. Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi, dags. 14. júlí 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Eftir að A lagði kvörtunina fram barst umboðsmanni afrit af svarbréfi Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna kvörtunar A og fleiri aðila. Af bréfinu varð ráðið að kvörtunin hefði lotið að sömu atriðum og kvörtun A til umboðsmanns og að hún yrði tekin til skoðunar. Umboðsmaður benti á að starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmanni væri þó fengin heimild til að tilkynna Alþingi um meinbugi á gildandi lögum, sbr. 11. gr. laganna, en ekki væri hægt að kvarta vegna slíkra atriða heldur ákvæði umboðsmaður sjálfur að eigin frumkvæði hvort heimildin skyldi nýtt, sbr. 5. gr. laganna. Með vísan til sjónarmiða að baki 3. mgr. 6. gr., c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, þess að á grundvelli EES-samningsins hefði verið komið á fót sérstökum aðila til að fjalla um kvartanir líkt og þá sem A hafði borið fram og þess að ESA hefði ákveðið að taka kvörtun A og fleiri aðila til skoðunar taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka til frekari athugunar hvort meinbugir væru á lögum nr. 151/2010.