Menntamál. Háskólar.

(Mál nr. 6496/2011)

A, sem hafði lokið tilteknu diplómanámi á meistarastigi við deild innan Háskóla Íslands, kvartaði yfir því að skólinn hefði ekki heimilað sér að hefja vinnu við meistararitgerð við deildina. Af gögnum málsins mátti einnig ráða að A væri ósátt við tilhögun einkunnagjafar í diplómanáminu. Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um erindið með bréfi, dags. 4. júlí 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Af kvörtun A varð ekki skýrlega ráðið hvort hún hefði borið kvörtun sína skriflega undir deildina, stjórn fræðasviðs eða áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, sbr. 50. gr. reglna nr. 569/2009, fyrir Háskóla Íslands, og 20. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla. Umboðsmaður gat því ekki tekið málið til frekari umfjöllunar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, og lauk málinu en tók fram að A ætti kost á að leita til sín á ný teldi hún enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar.