Opinberir starfsmenn. Laun og starfskjör.

(Mál nr. 6294/2011)

A kvartaði yfir því að opinbert stjórnvald sem hann starfaði hjá hefði krafið sig um greiðslu að tiltekinni fjárhæð á þeim grundvelli að honum hefðu verið ofgreidd laun á árinu 2010. A starfaði við sumarafleysingar hjá stjórnvaldinu og lét af störfum um mánaðamótin ágúst-september 2010. Í október 2010 fékk hann greidd laun sem hann átti inni, en einnig ofgreidd laun sem samsvöruðu mánaðarlaunum fyrir tímabilið 1.-30. september 2010. A var tilkynnt um ofgreiðsluna með bréfi, dags. 19. október 2010, og beðinn um að leggja upphæðina inn á reikning stjórnvaldsins. Síðar var A tilkynnt um að desemberuppbót hans hefði verið skuldajafnað á móti upphæfðinni og tilkynnt að eftirstöðvar skuldarinnar yrðu sendar í innheimtu yrðu þær ekki greiddar innan tiltekins tímamarks. A kvaðst hins vegar hafa tekið við greiðslunni í góðri trú. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 14. júlí 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu stjórnvaldsins að það kæmi skýrlega fram á launaseðli A að um mánaðarlaun að tiltekinni fjárhæð fyrir uppgjörstímabilið 01.09.10-30.09.10 hefði verið að ræða eða að A hefði mátt vita að um ofgreiðslu launa væri að ræða sem næmi mánaðarlaunum fyrir september 2010. Að því virtu og þegar litið var til þess að um uppgjör á þriggja mánaða starfi var að ræða, að ofgreiðslan átti sér stað aðeins einu sinni en ekki yfir lengra tímabil og þess tíma sem leið þar til ofgreiðslan átti sér stað þar til A var tilkynnt um hana taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu stjórnvaldsins að það hefði átt endurgreiðslukröfu á hendur A vegna ofgreiðslunnar. Umboðsmaður ákvað þó að rita stjórnvaldinu bréf þar sem hann gerði athugasemdir við tiltekið orðalag í bréfi þess til A vegna málsins, þess efnis að það „[teldust] ekki gild rök að kunna ekki að lesa launaseðil og tæplega heiðarlegt að taka sér laun fyrir heilan mánuð án þess að skila vinnuframlagi á móti“. Umboðsmaður minnti í því sambandi á 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 70/1996 og taldi orðalagið ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.