Landbúnaður. Garðyrkja. Bjargráðasjóður. Útreikningur bóta. Jafnræðisregla. Hæfi stjórnarmanns.

(Mál nr. 842/1993)

Máli lokið með áliti, dags. 24. október 1994.

A, sem var garðyrkjubóndi, kvartaði yfir ákvörðun Bjargráðasjóðs um fjárhæð styrks vegna uppskerubrests á árinu 1992. Þá laut kvörtun A að því að hann ætti ekki lengur rétt á styrkjum samkvæmt 9. gr. laga nr. 51/1972 um Bjargráðasjóð þar sem hætt hefði verið að innheimta bjargráðasjóðsgjald af félögum í Sambandi garðyrkjubænda. Loks laut kvörtun A að því að formaður Stéttarsambands bænda hefði sem stjórnarmaður Bjargráðasjóðs verið vanhæfur til meðferðar og afgreiðslu á umsókn A um styrk, vegna þeirrar aðildar sem formaðurinn hefði átt að úrsögn Sambands garðyrkjubænda úr Bjargráðasjóði.

Stjórn Bjargráðasjóðs ákvað 17. desember 1991 að verða við beiðni Stéttarsambands bænda frá 2. desember sama ár um að fella niður bjargráðasjóðsgjald af afurðum garðyrkju og gróðurhúsa, en Stéttarsamband bænda mæltist til þessa að beiðni Sambands garðyrkjubænda. A var ekki félagi í Sambandi garðyrkjubænda og óskaði eftir því að eiga áfram aðild að sjóðnum. Í byrjun febrúar 1993 lagði A fram umsókn um bætur vegna uppskerubrests sumarið 1992. Erindi A var afgreitt á fundi stjórnar Bjargráðasjóðs í apríl 1993. Ákveðið var að bæta tjón útiræktenda þ. á m. tjón A samkvæmt reglum frá fyrra ári, en jafnframt litið svo á að frá 1. september 1992 ættu framleiðendur í garðyrkju, aðrir en kartöfluframleiðendur, ekki rétt á styrkjum úr Bjargráðasjóði.

Umboðsmaður vísaði til laga nr. 51/1972 um Bjargráðasjóð, og reglugerðar, um að greiðsla búgreinarfélags til sjóðsins væri skilyrði þess að einstakir framleiðendur gætu átt rétt til greiðslu úr sjóðnum. Var það því niðurstaða umboðsmanns að A gæti ekki byggt rétt til bóta á 9. gr. laga nr. 51/1972 eftir 1. september 1992.

Um hæfi formanns Stéttarsambands bænda til meðferðar og afgreiðslu á umsókn A um nefndan styrk tók umboðsmaður það fram að samkvæmt 2. gr. laga nr. 51/1972 væri stjórn Bjargráðasjóðs skipuð fimm mönnum, þar á meðal formanni Stéttarsambands bænda. Umboðsmaður benti á að þegar lög gerðu beinlínis ráð fyrir því að fulltrúar tiltekinna hagsmunaaðila ættu sæti í stjórnsýslunefnd væri gengið út frá því að hagsmunir félagsmanna almennt leiddu ekki, einir sér, til vanhæfis nefndarmanna. Þá væri það, almennt séð, ekki til þess fallið að valda vanhæfi þótt starfsmaður hefði áður haft afskipti af sama máli í starfi sínu nema sérstakar ástæður leiddu til þess að draga mætti óhlutdrægni hans í efa. Umboðsmaður taldi það ekki verða ráðið af gögnum málsins að formaður Stéttarsambands bænda hefði verið vanhæfur til umfjöllunar um mál A í stjórn Bjargráðasjóðs.

Umboðsmaður leitaði skýringa Bjargráðasjóðs á þeim viðmiðunarreglum sem beitt væri við ákvörðun bóta. Eftir athugun á gögnum málsins og skýringum sjóðsins varð það niðurstaða umboðsmanns að sjónarmið sem lögð væru til grundvallar styrkveitingum væru lögmæt. Féllst umboðsmaður á að réttmætt væri að taka tillit til mismunandi áhættu eftir búgreinum. Var það niðurstaða umboðsmanns að ekki hefði komið fram að hallað hefði verið á A með ólögmætum hætti í nánari útfærslu sjónarmiða þeirra er greinir í starfsreglum sjóðsins, og tók umboðsmaður þá m.a. mið af því að við ákvörðun bóta til A var þeirri reglu ekki beitt, svo sem heimilt var, að taka mið af greiðslu búnaðarmálasjóðsgjalds tjónþola á fyrri árum. Var það því niðurstaða umboðsmanns að við ákvörðun styrkfjárhæðar til A hefði ekki verið um ólögmæta mismunun að ræða, þannig að bryti gegn reglum stjórnsýsluréttar. Umboðsmaður benti sjóðstjórn Bjargráðasjóðs hins vegar á að rétt væri að birta þær reglur sem stjórnin setur samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 51/1972, sbr. lög nr. 57/1980, um veitingu styrkja og lána.

I.

Hinn 9. júlí 1993 leitaði til mín A og kvartaði annars vegar yfir ákvörðun Bjargráðasjóðs frá 26. apríl 1993 um fjárhæð styrks vegna uppskerubrests af völdum veðurfars, sem hann varð fyrir á árinu 1992, og hins vegar yfir því, að hann ætti ekki lengur rétt á styrkjum skv. 9. gr. laga nr. 51/1972 um Bjargráðasjóð, þar sem ekki væri lengur innheimt svonefnt bjargráðasjóðsgjald af þeim, sem teldust félagar í Sambandi garðyrkjubænda, sbr. b-lið 5. gr. laga nr. 51/1972. Þá kvartaði A yfir því, að formaður Stéttarsambands bænda hefði sem stjórnarmaður Bjargráðasjóðs verið vanhæfur til meðferðar og afgreiðslu umsóknar A um styrk úr sjóðnum vegna þeirrar aðildar, sem formaðurinn hefði átt að úrsögn Sambands garðyrkjubænda úr Bjargráðasjóði.

II.

1.

Með bréfi til stjórnar Stéttarsambands bænda, dags. 12. janúar 1993, lýsti A athugasemdum sínum í tilefni af þeim upplýsingum, að hann ætti ekki lengur kost á styrk úr Bjargráðasjóði vegna uppskerubrests grænmetis. Í bréfi A segir:

"...Það er svo sl. sumar 1992 að allar káltegundirnar bregðast mér, svo til algjörlega af ýmsum óviðráðanlegum ástæðum og valda mér gífurlegu fjárhagstjóni [...] var mér bent á að nú væri röðin komin að mér að leita til Bjargráðasjóðs ef ég ætti að geta haldist á floti. Ég ámálgaði það fyrst við Hr. [X] garðyrkjuráðunaut og upplýsir hann mig þá um það að ég muni ekki vera lengur aðili að sjóðnum, vegna óska Sambands garðyrkjubænda um úrsögn úr sjóðnum síðsumars árið 1991 sem Stéttarsamband bænda hafi samþykkt. Ég kom af fjöllum og vildi vart trúa, ekki heyrt orð um þetta og komið heilt ár frá þessari breytingu. Bjargráðasjóðsgjaldið hefði ég greitt frá því að farið var að innheimta það og út árið 1991 eða þar til að ég hafði afsett mína framleiðslu í lok þessa árs, en stór hluti hennar varð hreinlega ónýtur vegna mikilla söluerfiðleika. Á þessum tímapunkti ársins 1992 er ég ekki farinn að sjá neina greiðslu vegna þess árs og þá að frádregnum sjóðagjöldum, svo þess vegna gat ég ekki áttað mig á breytingunni, og engin tilkynning hafði mér borist um það. Ég er ekki og hef aldrei verið meðlimur í Sambandi garðyrkjubænda, og þrátt fyrir að ég hafi í öll þessi ár verið virkur framleiðandi og því finnanlegur í sjóðaskrám og innan sölusamtaka hafa stjórnendur þess félagsskapar aldrei séð ástæðu til að senda mér svo mikið sem eitt bréf til þess að minna á sig og kynna, og er ég ekki einn um það. Af okkur fimm kálframleiðendum sem eru hluthafar og hafa afsetningarrétt í [Y] hf. erum við fjórir á sama báti hvað þetta varðar, eða 80% framleiðenda þess fyrirtækis. Ég get því ekki séð annað en að stjórnendur Sambands garðyrkjubænda hafi helst eingöngu viljað hafa ylræktarbændur sem meðlimi, enda hef ég litið svo á. [...] Þeirra hagsmunir eru í reynd allt aðrir en mínir. Þeir geta keypt fullkomnar tryggingar á frjálsum markaði á sín hús og þá ræktun sem þeir stunda þar innan dyra, og er burðarásinn í þeirra framleiðslu, en ég get enga slíka tryggingu keypt á mína útiræktun. [...] ég vænti þess að stjórn Stéttarsambands bænda láti sig í einhverju varða hagsmuni mína, líf og starf mitt og minna og taki strax á þessu máli og leiðrétti þessi mistök eða handvömm."

Með bréfi, dags. 8. mars 1993, sem ítrekað var 25. júní 1993, leitaði A til landbúnaðarráðuneytisins, með vísan til 8. gr. reglugerðar nr. 393/1990 um innheimtu gjalds til Búnaðarmálasjóðs. Óskaði hann eftir, að landbúnaðarráðherra veitti skriflegar upplýsingar um, hvar auglýsingar um gjaldhlutföll til Búnaðarmálasjóðs hefðu verið birtar fyrir árin 1991 og 1992, svo og að fá auglýsingarnar sjálfar.

Að beiðni A sendi framkvæmdastjóri Stéttarsambands bænda honum 1. apríl 1993 endurrit úr fundargjörðarbók stjórnar sambandsins, þar sem fjallað er um úrsögn garðyrkjubænda úr Bjargráðasjóði og erindi A varðandi aðild að sjóðnum, ásamt ljósritum af bréfum, sem málið varða. Í þeim bréfum koma fram upplýsingar um aðdraganda að úrsögn Sambands garðyrkjubænda úr Bjargráðasjóði.

Í bréfi, sem formaður Sambands garðyrkjubænda ritaði Stéttarsambandi bænda og stjórn Bjargráðasjóðs 17. júlí 1991, segir:

"Á aðalfundi Sambands garðyrkjubænda [...] var samþykkt eftirfarandi tillaga:

"Aðalfundur S.G. haldinn á Hótel Sögu þann 3. maí 1991 leggur til að stjórn Sambandsins verði heimilað að ganga frá því að almennt verði hætt að greiða í Bjargráðasjóð. Nefndin leggur þó áherslu á að rækilega verði kannaðir þeir þættir í ræktun sem ekki hafa fengist tryggingar fyrir og það kannað hvort vilji einstakra bændahópa er fyrir að greiða áfram í sjóðinn og njóta þar réttinda."

Á stjórnarfundi S.G. þann 12/7 s.l. var síðan samþykkt að hætt yrði að greiða af afurðum garðyrkjunnar í Bjargráðasjóð þann 1. janúar 1992. Sérstakir hópar garðyrkjubænda geta samt sem áður farið þess á leit við Stéttarsamband bænda að greiða áfram í Bjargráðasjóð."

Í framhaldi af þessu bréfi ritaði framkvæmdastjóri Stéttarsambands bænda Bjargráðasjóði bréf, dags. 11. september 1991, og spurðist fyrir um það, "hvort sá möguleiki sé fyrir hendi að einstakir hópar garðyrkjubænda haldi áfram þátttöku í Bjargráðasjóði þótt búgreinin sem heild hætti þátttöku í sjóðnum".

Í svari formanns Sambands garðyrkjubænda til stéttarsambandsins, sem fram kom í bréfi, dags. 30. september 1991, segir, að stjórn Sambands garðyrkjubænda hafi farið þess á leit við félagsmenn sína, að þeir, sem hefðu áhuga á að halda áfram greiðslum í Bjargráðasjóð, óskuðu eftir því fyrir 13. september það ár. Þá segir í bréfi þessu:

"Aðeins eitt svar barst við þessari umleitan og því lítur stjórn Sambands Garðyrkjubænda þannig á að almennur vilji sé fyrir því að ganga úr Bjargráðasjóði, eins og hafði verið samþykkt á aðalfundi Sambandsins.

Það er því áréttað hér í bréfi þessu að garðyrkjubændur óska eftir að hætta greiðslum í Bjargráðasjóð frá og með 1. janúar 1992."

Í endurriti fundargerðarbókar stjórnar Stéttarsambands bænda kemur eftirfarandi fram um úrsögn garðyrkjubænda úr Bjargráðasjóði og erindi A varðandi aðild að sjóðnum:

"Stjórnarfundur 21. ágúst 1991.

"Bréf Sambands garðyrkjubænda varðandi greiðslu gjalda til Bjargráðasjóðs.

Í bréfinu kemur fram að aðalfundur sambandsins hafi samþykkt að heimila stjórninni að ganga frá því að almennt verði hætt að greiða í Bjargráðasjóð af afurðum garðyrkjunnar. Þá er lagt til að kannaðir verði þeir þættir í ræktun sem ekki hafa fengist tryggingar fyrir og hvort vilji einstakra bændahópa er fyrir að greiða áfram í sjóðinn og njóta þar réttinda.

Samþykkt að kanna hvort einstakir hópar bænda innan búgreinar geti með þessum hætti haldið áfram þátttöku í Bjargráðasjóði."

Stjórnarfundur 6. nóvember 1991.

"Erindi Sambands garðyrkjubænda varðandi Bjargráðasjóð.

[B] kynnti erindið, sem fjallar um vilja garðyrkjubænda til að hætta þátttöku í Bjargráðasjóði. Hann spurðist einnig fyrir um hvort einstakir hópar innan greinarinnar geti verið áfram innan sjóðsins. Hann skýrði síðan frá niðurstöðum könnunar meðal bænda, þar sem kom fram að bændur eru einhuga í afstöðu sinni.

Formaður skýrði frá því að einstakir hópar gætu ekki átt aðild að sjóðnum, ef búgreinasamband hættir aðild, samkvæmt skilgreiningu hans.

Formanni og framkvæmdastjóra falið að ræða við stjórn Sambands garðyrkjubænda um framkvæmd málsins."

Stjórnarfundur 29. nóvember 1991

"Úrsögn garðyrkjubænda úr Bjargráðasjóði.

Tekið fyrir að nýju erindi Sambands garðyrkjubænda um úrsögn úr Bjargráðasjóði.

Fram kom að allar greinar garðyrkju aðrar en kartöflur eru skilgreindar sem garðyrkja og gróðurhúsaafurðir og falla því undir lögsögu Sambands garðyrkjubænda.

Stjórn Stéttarsambandsins samþykkti að mæla með þessari breytingu frá 1. september 1991."

Með bréfi, dags. 2. desember 1991, tilkynnti framkvæmdastjóri Stéttarsambands bænda landbúnaðarráðuneytinu, að stjórn Stéttarsambandsins hefði, að beiðni Sambands garðyrkjubænda, samþykkt á fundi sínum 30. nóvember sama ár að mæla með því við stjórn Bjargráðasjóðs að felld yrði niður innheimta á 0,6% gjaldi til Bjargráðasjóðs frá 1. september 1991. Liti stjórn Stéttarsambandsins svo á, að þar sem aðeins væri starfandi eitt formlegt búgreinafélag bænda í garðyrkju og gróðurhúsaframleiðslu, féllu allar greinar slíkrar framleiðslu, aðrar en kartaflna, undir lögsögu garðyrkjubænda og lytu því þessari ákvörðun.

Í endurriti fundargerðarbókar stjórnar Stéttarsambands bænda kemur eftirfarandi fram um erindi A varðandi aðild að sjóðnum:

Stjórnarfundur 13. janúar 1993.

"Bréf [A] garðyrkjubónda vegna aðildar að Bjargráðasjóði.

Framkvæmdastjórinn kynnti efni bréfsins [...]

Stjórnin ályktaði að hún sæi ekki möguleika á að leysa úr hans málum, með hliðsjón af þeim lögum sem gilda um Bjargráðasjóð.""

2.

Í byrjun febrúar 1993 lagði A fram umsókn til Bjargráðasjóðs um bætur vegna uppskerubrests grænmetis sumarið 1992. Fylgdi umsókninni matsgerð garðyrkjuráðunautar Búnaðarfélags Íslands frá 2. febrúar 1993. Er tjón A þar áætlað samtals kr. 6.003.418,- Með samþykkt stjórnar Bjargráðasjóðs 26. apríl 1993 var ákveðið að greiða A styrk að fjárhæð kr. 1.185.000,-. Tók hann við styrknum 10. maí 1993, en áskildi sér rétt til þess að krefjast endurskoðunar á fjárhæð hans.

III.

Með bréfi 12. ágúst 1993 óskaði ég eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að Bjargráðasjóður skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té tiltæk gögn um málið. Umbeðnar upplýsingar og skýringar bárust mér með bréfi Bjargráðasjóðs 28. september 1993. Í bréfi sjóðsins segir:

"Aðdragandi afgreiðslu á umsókn [A].

1. Á fundi stjórnar Bjargráðasjóðs þann 17. des. 1991 var tekið fyrir bréf Stéttarsambands bænda dags. 2. desember 1991, þar sem mælt er með því, samkv. ósk Sambands garðyrkjubænda, að innheimtu Bjargráðasjóðsgjalda af garðyrkju- og gróðurhúsaframleiðslu annarri en kartöflurækt verði hætt 1. september 1991. Stjórn Bjargráðasjóðs er skylt að verða við beiðni Stéttarsambands bænda, sem borin er fram f.h. búgreinafélaga (sbr. 6. gr. laga 41/1990 um Búnaðarmálasjóð) og samþykkti hún á þessum fundi, að verða við beiðninni.

2. Á fundi stjórnar Bjargráðasjóðs þann 10. febrúar 1993 er tekin fyrir umsókn [A] dags. 2. febrúar 1993, vegna uppskerubrests á káli haustið 1992. Á fundinum er afgreiðslu umsóknarinnar frestað og ákveðið að óska eftir lögfræðilegri greinargerð varðandi bótarétt umsækjanda eftir að innheimtu Bjargráðasjóðsgjalda af garðyrkju- og gróðurhúsaafurðum var hætt 1. september 1991. Fram kom á fundinum að umsækjandi var ekki félagi í Sambandi garðyrkjubænda.

3. Enn var umsókn [A] tekin fyrir á fundi stjórnar Bjargráðasjóðs þann 1. apríl 1993 en afgreiðslu frestað, þar sem enn var beðið eftir lögfræðilegri álitsgerð um málið.

Greinargerð [...] lögfr. vegna umsóknar [A].

4. Á fundi stjórnar Bjargráðasjóðs þann 26. apríl 1993 var lögð fram greinargerð [...] lögfræðings, dags. 5. apríl 1993, vegna umsóknar [A]. Stjórnin komst að þeirri niðurstöðu, að tímasetningar varðandi þá ákvörðun að hætta innheimtu Bjargráðasjóðsgjalds af garðyrkju og gróðurhúsaafurðum orkaði tvímælis og var ákveðið að bæta tjón útiræktenda í greininni samkv. reglum frá fyrra ári. Ítrekuð var sú regla að greiðsla Bjargráðasjóðsgjalds væri forsenda fyrir styrkveitingu úr búnaðardeild sjóðsins og samþykkt að senda Stéttarsambandi bænda og Landbúnaðarráðuneytinu áðurnefnda greinargerð.

Mat á tjóni, útreikningar á styrk.

5. Ráðunautar Búnaðarfélags Íslands hafa til langs tíma verið skoðunar- og trúnaðarmenn Bjargráðasjóðs varðandi mat á tjónum. Varðandi tjón [A] lá fyrir matsgerð frá garðyrkjuráðunaut Búnaðarfélags Íslands dags. 2. febrúar 1993 og var það mat lagt til grundvallar á útreikningi bóta og farið eftir bótareglum fyrra árs og áætlað Bjargráðasjóðsgjald vegna uppskeru 1991 kr. 13.000 dregið frá.

Heildartjón kr. 6.003.418

Bjargráðasjóðsgj. - -13.000

Eigin áhætta 40% - -2.401.000

Styrkur úr búnaðardeild 33% - 1.185.000

Við útreikning bóta til [A] var farið eftir reglum sjóðsstjórnar varðandi útiræktun, sem hafa verið óbreyttar í töluverðan tíma. Þannig var gætt samræmis og jafnræðis í afgreiðslu á umsókn hans miðað við fyrirgreiðslu til annarra útiræktenda garðávaxta á undanförnum árum. Þann 10. maí 1993 fékk [A] greiddan styrk út búnaðardeild Bjargráðasjóðs að fjárhæð kr. 1.185.000.

Reglur Bjargráðasjóðs.

6.

Samkvæmt 10. gr. laga um Bjargráðasjóð setur stjórn hans á hverjum tíma reglur um fyrirgreiðslu vegna tjóna og hafa reglur varðandi aðstoð búnaðardeildar sjóðsins lítið sem ekkert breyst á undanförnum árum. Frá tjónum er dregin eigin áhætta, sem annaðhvort er ákveðið hlutfall af bústofni eða framleiðsluverði ársins. Eigin áhætta í sauðfjár- og nautgriparækt er 5% miðað við bústofn en í alifugla-, loðdýra- og svínarækt 5% miðað við árstekjur síðasta árs. Einnig er tekið tillit til framleiðslutakmarkana. Í ræktun garðávaxta er eigináhættan 40% miðað við tekjur síðasta árs eða áætlaðar tekjur á tjónaári (þá er miðað við 100% uppskeru en almennt er áætlað að 70% uppskeru nýtist í áfallalausu ári). Samkvæmt reglunum er tjónafyrirgreiðsla sjóðsins 67% af útreiknuðu tjóni að frádreginni mishárri eigin áhættu nema í garðyrkju- og gróðurhúsaframleiðslu, þar sem tjónafyrirgreiðslan er 33%.

7.

Stjórn Bjargráðasjóðs telur að hún hafi víðtæka heimild til að setja sér viðmiðunar- og verklagsreglur varðandi fjárhagsaðstoð úr búnaðardeild sjóðsins. Við setningu slíkra reglna hlýtur jafnframt að vera eðlilegt að taka mið af mismunandi áhættu eftir eðli búgreina, inngreiðslum einstakra búgreina í sjóðinn og fjárhagsstöðu hans og það hefur stjórnin gert. Því hefur áhættusöm ræktun borið hærri eigináhættu og notið lægri styrkja. Eins og áður hefur komið fram hafa reglurnar lítið breyst á undanförnum árum og um þær náðst bærileg sátt við tjónþola. Á fundum Stéttarsambands bænda hefur verið ályktun um, að eðlilegt væri að skipta búnaðardeild sjóðsins eftir búgreinum. Viðmiðunar- og verklagsreglur stjórnarinnar sýna þó, að til lengri tíma litið er ekki mikið ósamræmi milli inngreiðslna einstakra búgreina og styrkveitingu úr sjóðnum nema í kartöflu- og loðdýrarækt,

Styrkveitingar og greiðslur Bjargráðasjóðsgjalds 1987-1992.

Búgreinar Styrkir Gjöld

Sauðfé 85.675 121.162

Nautgripir 154.405 176.834

Hross 1.934 2.997

Grasbrestur 47.174

Svín 10.676 20.995

Alifuglar 21.986 27.520

Dúnn 269 2.490

Loðdýr 60.115 5.941

Kartöflur 85.789 6.235

Gróðurhúsarækt 20.757 14.983

Annað 23.649 2.469

Aðild [H] að afgreiðslu málsins.

8.

Aðild [H] formanns Stéttarsambands að afgreiðslu stjórnar Bjargráðasjóðs á erindi [A] byggist á því, að formaður Stéttarsambandsins eða staðgengill hans situr í stjórn Bjargráðasjóðs skv. lögum um sjóðinn. Ekki verður séð að hann hafi á neinn hátt verið vanhæfur til að fjalla um þessa umsókn frekar en aðrar. Í þessu sambandi er jafnframt bent á, að umsókninni var aldrei synjað af sjóðsstjórninni þó afgreiðslu væri frestað meðan leitað var lögfræðiálits á rétti umsækjanda til bóta úr sjóðnum og fleira athugað varðandi umsóknina milli funda, sem oft gerist.

Skylda stjórnar Bjargráðasjóðs að verða við undanþágubeiðnum Stéttarsambands bænda.

9.

Stjórn Bjargráðasjóðs er skylt samkvæmt lögum um Búnaðarmálasjóð, að verða við undanþágubeiðnum Stéttarsambands bænda varðandi greiðslur einstakra búgreina í sjóðinn. Á fundi stjórnar Bjargráðasjóðs þann 17. desember 1991 var því orðið við beiðni Stéttarsambandsins, í bréfi dags. 2. desember 1991, um niðurfellingu Bjargráðasjóðsgjalds af afurðum garðyrkju- og gróðurhúsa. Á þeim fundi lá jafnframt fyrir auglýsing landbúnaðarráðuneytisins, dags. 4. desember 1991, um hlutfall búnaðarmálasjóðsgjalda tímabilið 1. september 1991 til 31. ágúst 1992, þar sem fram kemur, að niður skuli falla innheimta gjalda til Bjargráðasjóðs af afurðum hrossa og afurðum garðyrkju og gróðurhúsa, nema kartaflna.

Niðurstaða.

10.

Niðurstaða málsins er sú, að [A] fékk þann 10. maí 1993 bætur úr Bjargráðasjóði vegna tjóns í garðávaxtarækt á árinu 1992 samkvæmt reglum stjórnar sjóðsins og hefur þar með á allan hátt notið jafnræðis við aðra umsækjendur.

Við mat á tjóni og útreikningi á styrk var farið eftir reglum sjóðsstjórnar, sem lítið hafa breyst og unnið hefur verið eftir árum saman. Afgreiðslu umsóknarinnar var því hagað samkvæmt venju, að því undanskyldu að leitað var lögfræðilegrar álitsgerðar varðandi málið, og tók hún ekki lengri tíma en oft vill verða.

Umsókn [A] barst Bjargráðasjóði í febrúar s.l. og fékk hann greiddar tjónabætur í maí s.l. Dráttur á afgreiðslu umsóknarinnar er því ekki óeðlilegur en algengast er að greiðsla tjónabóta vegna áfalla í uppskeru dragist fram á næsta ár eftir að tjónið á sér stað. Til þess liggja ýmsar ástæður, mislangan tíma tekur að fá tjónin metin, upplýsingum um þau er safnað saman og reynt er að afgreiða þau sem flest í einu, til að gæta samræmis og jafnræðis í afgreiðslu þeirra.

Mismunun á tjónabótum eftir búgreinum er eðlileg og hefur lengi viðgengist. Áhætta og inngreiðslur einstakra búgreina í sjóðinn er misjöfn og reglur um tjónabætur taka mið af því.

Kvörtun [A] varðandi afgreiðslu Bjargráðasjóðs á umsókn um styrk úr sjóðnum og styrkfjárhæð er því ekki réttmæt.

Áföll í garðyrkju- og gróðurhúsaræktun nýtur ekki styrkja úr Bjargráðasjóði eftir 1. september 1992.

11.

Stjórn Bjargráðasjóðs lítur svo á að frá og með 1. september 1992 gangi í gildi niðurfelling á greiðslu Bjargráðasjóðsgjalds af garðyrkju- og gróðurhúsaræktun annarri en kartöflurækt. Stjórnin hefur sett þá reglu, að greiðsla Bjargráðasjóðsgjalds væri skilyrði fyrir bótagreiðslum úr sjóðnum. Frá 1. september 1992 eigi því garðyrkju- og gróðurhúsarækt, að undanskilinni kartöflurækt ekki rétt á styrkjum úr Bjargráðasjóði."

Athugasemdir A við bréf Bjargráðasjóðs bárust mér 29. október og 26. nóvember 1993.

IV.

Ég ritaði Bjargráðasjóði á ný bréf 29. mars 1994. Vísaði ég til þess, að í bréfi sjóðsins frá 28. september 1993 væri því lýst, hvernig hagað hefði verið ákvörðun styrks til A. Þá kæmi fram í fundargerðarbók Bjargráðasjóðs frá 26. apríl 1993, að samþykkt hefði verið að afgreiða tjón á garðávöxtum þannig, að tjón og uppskera yrði "...metið að hámarki miðað við skil á Bjargráðasjóðsgjaldi að frádreginni eigin áhættu 40% og að styrkur [yrði] 33% miðað við reikningsreglur sjóðsins". Ennfremur skyldi taka tillit til eðlilegra breytinga í framleiðslutegundum. Þá tók ég fram í bréfi mínu til Bjargráðasjóðs, að af bréfi sjóðsins frá 28. september 1993 yrði ráðið, að eigin áhætta í öðrum búgreinum væri 5% og "tjónafyrirgreiðsla" eða styrkur væri 67% af útreiknuðu tjóni. Ég óskaði því eftir, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, að mér yrðu látnar í té upplýsingar og skýringar varðandi eftirtalin atriði:

"1)

Ráðið verður af bréfi Bjargráðasjóðs frá 28. september 1993 og þeim gögnum, sem því fylgdu, að Bjargráðasjóður hafi við ákvörðun bóta til [A] byggt ákvörðun sína á þremur meginsjónarmiðum. Í fyrsta lagi, að hlutfall styrkja sé mismunandi eftir búgreinum. Í öðru lagi á mismunandi mati eftir búgreinum á því, sem nefnt er eigin áhætta. Í þriðja lagi, að fjárhæð styrkveitinga til framleiðenda takmarkist af þeirri fjárhæð eða greiðslu, sem hlutaðeigandi búgreinafélag greiði til Bjargráðasjóðs. Af þessu tilefni óska ég eftir því að Bjargráðasjóður skýri nánar þann lagagrundvöll og þau sjónarmið, sem framangreindur munur milli búgreinafélaga er byggður á.

2)

Hvort beitt hafi verið sömu viðmiðunum við ákvörðun á eigin áhættu og hlutfalli styrks til [A] og beitt var við ákvörðun bóta fyrir tjón kartöfluframleiðenda á árinu 1991. Ef svo er, hvaða sjónarmið hafi búið þar að baki. Ennfremur óskast upplýst, hvort sama mat á áhættu hafi ávallt verið notað, að því er alla garðyrkjubændur snertir, hvort sem þeir stunduðu svonefnda gróðurhúsaræktun eða útiræktun.

3)

Þá óska ég eftir því, að mér verði látnar í té upplýsingar um fjölda styrkja tímabilið 1987-1992 og hvernig þeir skiptist milli framleiðenda kartaflna og framleiðenda annarra garðávaxta, hvort sem þar er um að ræða gróðurhúsaræktun eða útiræktun. Ennfremur óska ég eftir upplýsingum um, hvernig og hvort verkreglur Bjargráðasjóðs við ákvörðun styrkja hafi verið óbreyttar á nefndu tímabili og, ef svo er ekki, óska ég eftir upplýsingum um þær breytingar.

4)

Samkvæmt upplýsingum [A] telur hann, að [C], hafi verið ákveðinn styrkur eftir öðrum reglum en sér, þegar [C] hafi orðið fyrir uppskerubresti við ræktun hvítkáls á árunum 1988-1989. Af því tilefni óska ég eftir gögnum og upplýsingum um, hvernig staðið var að ákvörðun styrks í umræddu tilfelli.

5)

Hvort Bjargráðasjóður birti umsækjendum með einhverjum hætti þær reglur, sem sjóðnum er heimilt að setja, samkvæmt 2. mgr. 9. gr. og 10. gr. laga nr. 51/1972 um Bjargráðasjóð."

Í sama bréfi óskaði ég einnig eftir því, að Bjargráðasjóður léti mér í té gögn og upplýsingar um samskipti Stéttarsambands bænda og stjórnar Bjargráðasjóðs vegna þess þáttar kvörtunarinnar, að A ætti ekki lengur rétt á styrkjum skv. 9. gr. laga nr. 51/1972 um Bjargráðasjóð, þar sem ekki væri lengur innheimt bjargráðasjóðsgjald af þeim, sem teldust félagar í Sambandi garðyrkjubænda, þ. á m. um afstöðu Bjargráðasjóðs til bréfs, er sjóðnum var sent frá Stéttarsambandi bænda, dags. 11. september 1991.

Hinn 29. mars 1994 ritaði ég einnig bréf til landbúnaðarráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins. Með tilvísan til 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis óskaði ég eftir því, að landbúnaðarráðuneytið léti mér í té upplýsingar og gögn um afskipti ráðuneytisins af máli þessu, þ. á m. um tilkynningar Stéttarsambands bænda samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 393/1990 um innheimtu gjalds til Búnaðarmálasjóðs. Ennfremur óskaði ég upplýsinga um, hvað liði svörum ráðuneytisins við erindum A frá 8. mars 1993 og 25. júní 1993. Þá óskaði ég eftir því við félagsmálaráðuneytið, á grundvelli 9. gr. laga nr. 13/1987, að það skýrði ástæður þess, að ekki hefði verið sett reglugerð fyrir Bjargráðasjóð, eins og boðið er í 17. gr. laga nr. 51/1972 um Bjargráðasjóð.

Svör Bjargráðasjóðs bárust mér með bréfi sjóðsins 16. maí 1994. Þar segir:

"Bjargráðasjóður skiptist í tvær deildir almenna deild er bætir tjón af völdum náttúruhamfara og búnaðardeild er bætir tjón m.a. af völdum slysa, sjúkdóma og uppskerubrests og hefur aðallega tekjur af söluvörum landbúnaðarins, þ.e. frá þeim búgreinum er greiða til sjóðsins.

(1)

Lagagrundvöllur og sjónarmið sjóðsins vegna mismunandi styrkhlutfalla búgreina og eigin áhættu:

Í fyrstu setningu 10. gr. laga sjóðsins nr. 51/1972 segir "Fjárhagsaðstoð beggja deilda sjóðsins skv. 8. og 9. gr. laga þessara er fólgin í veitingu styrkja eða lána, eftir reglum, sem sjóðstjórn setur."

Samkvæmt þessari lagagrein hefur stjórn sjóðsins unnið á undanförnum árum. Stjórn sjóðsins leitast við á hverju ári, að skoða heildartjón hverrar búgreinar og taka afgreiðslur mið af þeim. Með því er leitast við að ná jafnræði tjónþola innan sömu búgreinar á sama tjónaári og ennfremur hefur á undanförnum árum verið unnið að því að samræma reglur til lengri tíma. Fyrr á árum voru afgreiðslur miðaðar við aðrar forsendur og gjarnan við útlagðan kostnað vegna tjónsins en ekki áætlað söluverðmæti. Eigin áhætta var tekin inn í tjónaútreikning 1989 til að fella út smærri tjón og til að gæta jafnræðis milli tjónþola, þannig að allir bæru ákveðinn hluta tjóns og að hlutfall eigin áhættu miðaðist við umfang rekstrar. Áhættuþættir í rekstri búgreina eru afar mismunandi og tekur hlutfall eigin áhættu mið af því. Samanburð á afgreiðslum styrkja milli ára þarf að skoða með tilliti til þessa.

Gildandi vinnureglur stjórnar sjóðsins [eru] m.a. byggðar á eftirfarandi sjónarmiðum:

a)Styrkir.

Styrkir taka mið af þeim fjármunum, sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar á hverju ári frá þeim búgreinum sem greiða til sjóðsins. Búgreinar greiða allar sama hlutfall af framleiðsluverðmæti til sjóðsins, en framleiðsluverðmætið er mjög mismunandi milli búgreina. Af þeirri ástæðu eru styrkir sem hlutfall af tjóni einnig mismunandi t.d. 67% af tjónum í sauðfjár- og nautgriparækt en 33% í kartöflurækt og ræktun annarra garðávaxta. Eigin áhætta er í báðum tilfellum dregin frá tjóni áður en styrkur er reiknaður. Vikið hefur verið frá þessari viðmiðun styrkja við inngreiðslu búgreina, þegar stórfelld tjón hafa orðið í einstökum búgreinum, t.d. kartöflurækt, og hafa styrkir þá verið langt umfram inngreiðslur búgreinarinnar, þó styrkhlutfall miðað við tjón hafi ekki breyst.

Búnaðardeild sjóðsins fær tekjur af:

* Söluvörum búgreina 0,6% til ársloka 1993, en frá ársbyrjun 1994 0,3%,

* Framlögum sveitarfélaga ákv. krónutala á íbúa, 25% hluti þess rennur til búnaðardeildar sjóðsins (ca 5 millj. á árinu 1993).

* Ríkisframlagi, en það hefur ekki verið greitt til sjóðsins undanfarin ár, ef frá er talið árið 1991.

b) Eigin áhætta:

Er mismunandi eftir búgreinum. Eðlilegt er talið að þeir sem stunda áhættusamari búrekstur beri sjálfir hærri eigin áhættu, en þeir sem stunda áhættuminni rekstur. Eigin áhætta tekur ýmist mið af ársframleiðslu, tekjum eða bústofni, eftir því um hvaða rekstur eða búgrein er að ræða. Sem dæmi má nefna að "eðlileg rýrnun í kartöflurækt er talin 30% miðað við upptekið magn og talið er eðlilegt, að einn eða tveir gripir í fjósi misfarist á ári miðað við 20-40 kúa fjós. Eigin áhætta tjónþola er ekki reiknuð oftar en einu sinni á ári vegna tjóna í sömu búgrein. Ef eigin áhætta er hærri en fyrsta tjón dregst það sem eftir er af eigin áhættu frá næsta tjóni (innan sama verðlagsárs).

c) Takmörkun bóta:

Tjónabætur eða styrkir vegna garðávaxtatjóna takmarkast af greiðslu búnaðarmálasjóðsgjalds tjónþola á fyrri árum. Með þessari reglu takmarkast styrkir vegna tjóna við það framleiðslumagn sem lagt hefur verið til grundvallar greiðslu búnaðarmálasjóðsgjalds fyrra árs eða meðaltals fyrri ára. Tjón umfram þá viðmiðun eru ekki bætt. Miðað við þær upplýsingar er liggja fyrir hjá sjóðnum (afrit af innleggsnótum) hafa tekjur [A] af innlögðu grænmeti verið þannig án VSK:

Árið 1989 Kr. 1.879.962.-

" 1990 " 2.051.644.-

" 1991 " 2.346.006.-

Á tjónaárinu 1992 er verðmæti afurða skv. tjónamati kr. 6.003.418.- auk lítilsháttar sölu. Undantekning var gerð frá reglu um takmörkun bóta við afgreiðslu umsóknar G.H., vegna breytinga á framleiðslu og verðmætaaukningar miðað við fyrri ár.

(2)

Viðmiðun eigin áhættu og hlutfall styrks:

Sömu viðmiðunum við ákvörðun á eigin áhættu og hlutfall styrks var beitt í tilfelli [A] og við ákvörðun bóta fyrir kartöflutjón 1991 og 1992.

(3)

Fjölda styrkja 1987-1992 og skipting þeirra milli framleiðanda:

Kartöflu- og gulrófuræktenda 87 styrkir kr. 31.561.728.-

Gulróta- og kálræktenda (útirækt) 6 " " 8.355.000.-

Gróðurhúsaræktenda 15 " " 8.793.920.-

Samtals 108 Kr. 48.710.648.-

Verkreglur:

Kartöflu- og gulrófurækt (100% uppskera):

1989-1990 var eigin áhætta 50% miðað við meðaltalsuppskeru nokkra ára og tjónabætur 50% af útreiknuðu tjóni að frádreginni eigin áhættu. Á áðurnefndu tímabili voru afgreiddar tjónabætur vegna 3ja tjóna af völdum sjúkdóms í stofnræktun útsæðis, en þar var ekki reiknuð eigin áhætta og bætur voru 50% af tjóni. Ástæður þessarar afgreiðslu voru að við stofnræktun útsæðis þarf framleiðsla að vera sjúkdómalaus í nokkur ár samfellt. Engin tjón voru í kartöflurækt árin 1987 og 1988. 1991-1992 var eigin áhætta 40% og 33% styrkur.

Gulróta- og kálrækt (útiræktun):

1987-1990 var ekki notuð eigin áhætta, en útreikningur tjóna var mismunandi og styrkur 50% miðað við útreiknað tjón.

1991-1992 var eigin áhætta 40% og 33% styrkur (100% uppskera).

Gróðurhúsaræktun:

1987-1990 var engin eigin áhætta og styrkur 50% af útreiknuðu tjóni. 1991 var reiknuð 5% eigin áhætta miðað við áætlaðar heildartekjur af rekstri og 50% styrkur af hverju tjóni.

(4)

Styrkur til [S], vegna tjóns á hvítkáli og gulrófum þann 11. júní 1989 af völdum hvassviðris.

Fyrra mat ráðunauts, dags. 14. júní 1989, á útlögðum kostnaði [S]. vegna ræktunar sem eyðilagðist var áætlað kr. 3.169.700.- Síðara tjónamat ráðunauts dags. 4. desember 1989 var miðað við áætlað söluverð afurða á hvítkáli og gulrófum og var áætlað kr. 26.867.680.- (sambærilegur útreikningur og á tjóni [A]). Við umfjöllun stjórnar sjóðsins á fundi 18. desember 1989 um bætur til [S] lá m.a. fyrir nýtt mat frá tjónþola dags. 15. desember 1989 um hver áætluð rekstrarútgjöld vegna framleiðslunnar er eyðilagðist hefðu orðið (kr. 5.990.00.-) og ákvað stjórn Bjargráðasjóðs að taka mið af því mati og áætlaði tjónið 6 milljónir króna. Samþykktur var styrkur að fjárhæð kr. 3 milljónir til [S]. Í afgreiðslu stjórnar er tekið mið af áætlun um framleiðslukostnað, en ekki áætluðu söluverðmæti afurða er eyðilagðist (kr. 26.867.680.-)

(5)

Birting reglna Bjargráðasjóðs:

Reglur sjóðsins hafa ekki verið birtar, en reglugerð nr. 122/1994 fyrir sjóðinn var sett þann 21. febrúar 1994."

Athugasemdir A við ofangreint bréf Bjargráðasjóðs bárust mér 26. maí 1994.

Með bréfi félagsmálaráðuneytisins 8. apríl 1994 bárust mér upplýsingar um, að reglugerð hefði verið sett fyrir Bjargráðasjóð 21. febrúar 1994. Var reglugerðin birt í Stjórnartíðindum 22. mars 1994.

Í svari landbúnaðarráðuneytisins, sem barst mér 16. ágúst 1994, kemur eftirfarandi fram:

"Með bréfi dags. 2. desember 1991 til ráðuneytisins [...] óskaði Stéttarsamband bænda eftir því á grundvelli heimildar í 8. gr. reglugerðar nr. 393/1990 um innheimtu gjalds til Búnaðarmálasjóðs að felld verði niður innheimta á 0,6% gjaldi til Bjargráðasjóðs frá 1. september 1991 af afurðum garðyrkju og gróðurhúsa, öðrum en kartöflum og síðar einnig gulrófum. Var það gert á grundvelli beiðni frá Sambandi garðyrkjubænda. Hlutfall Búnaðarmálasjóðsgjalds, verðlagsárið 1991-1992, var síðan birt, með auglýsingu nr. 573/1991, sem tók gildi 11. desember 1991. Eru síðari auglýsingar um sama efni, eins og fram kemur í bréfi yðar, nr. 118/1993 og 25/1994 og hafa þær að geyma sömu ákvæði um innheimtu gjalds til Búnaðarmálasjóðs af afurðum garðyrkju og gróðurhúsa."

Með bréfi ráðuneytisins fylgdi afrit af svari þess við fyrirspurnum A, er ráðuneytið hafði sent honum með bréfi, dags. 10. ágúst 1994. Kemur þar fram, að auglýsing nr. 573/1991, um hlutfall Búnaðarmálasjóðsgjalds tímabilið 1. september 1991 til 31. ágúst 1992, hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 1991. Þá hafi auglýsing nr. 118/1993, um sama efni, fyrir verðlagsárið 1992-1993 verið birt með sama hætti 26. mars 1993.

Athugasemdir A við ofangreint bréf landbúnaðarráðuneytisins bárust mér 22. ágúst 1994.

V.

1.

Samkvæmt gögnum málsins ákvað stjórn Bjargráðasjóðs 17. desember 1991 að verða við beiðni Stéttarsambands bænda, frá 2. desember sama ár, um niðurfellingu bjargráðasjóðsgjalds af afurðum garðyrkju og gróðurhúsa. Lá þá fyrir auglýsing landbúnaðarráðuneytisins, dags. 4. desember 1991, um hlutfall búnaðarmálasjóðsgjalds tímabilið 1. september 1991 til 31. ágúst 1992, þar sem m.a. kemur fram, að niður skuli falla innheimta gjalda til Bjargráðasjóðs af afurðum garðyrkju og gróðurhúsa, nema kartaflna.

Hluti af árlegum tekjum Bjargráðasjóðs kemur frá söluvörum í landbúnaði, 0,6% skv. b-lið 5. gr. laga nr. 51/1972 um Bjargráðasjóð. Í 6. gr. laga nr. 41/1990 um Búnaðarmálasjóð er að finna undanþáguheimild, sem hljóðar svo:

"Þrátt fyrir ákvæði b-liðar 5. gr. laga um Bjargráðasjóð, nr. 51 27. maí 1972 getur stjórn Bjargráðasjóðs undanþegið framleiðsluvörur einstakra búgreina greiðsluskyldu að hluta eða öllu leyti. Komi fram beiðni um slíkt frá Stéttarsambandi bænda er stjórninni skylt að verða við því."

Í 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 393/1990, sbr. reglugerð nr. 551/1993, um innheimtu gjalds til Búnaðarmálasjóðs, eru ákvæði um innheimtu og skiptingu þessara gjalda af vöru- og leigusölu í landbúnaði. Í 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar segir, að greiðslur til Bjargráðasjóðs skuli breytast, hafi stjórn sjóðsins nýtt sér heimild 8. gr., sem hljóðar svo:

"Jafnhliða búnaðarmálasjóðsgjaldi skal innheimtuaðili á sama hátt innheimta gjald af vöru- og leigusölu í landbúnaði sbr. 2. gr., 0,3%, er renni til Bjargráðasjóðs Íslands, sbr. 5. gr. laga nr. 51/1972 um Bjargráðasjóð ásamt síðari breytingum, hafi stjórn sjóðsins ekki undanþegið vöruna eða leiguna gjaldskyldu að einhverju eða öllu leyti. Ákvarðanir um breytta gjaldskyldu til Bjargráðasjóðs skal taka fyrir 1. september ár hvert og tilkynna þær landbúnaðarráðherra sem auglýsir gjaldahlutfallið með auglýsingu um gjaldahlutföll til Búnaðarmálasjóðs. Óski Stéttarsamband bænda fyrir hönd búgreinafélags, eftir breyttri gjaldskyldu skal beiðni um slíkt hafa borist til Bjargráðasjóðs Íslands fyrir 15. ágúst ár hvert."

Ákvæðum um fresti til ákvarðana um breytta gjaldskyldu til Bjargráðasjóðs, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 393/1990, var ekki fylgt, er Bjargráðasjóður varð við ósk Stéttarsambands bænda 17. desember 1991, en þá þegar, eða 4. desember 1991, hafði landbúnaðarráðuneytið auglýst breytta gjaldskyldu. Eftir að stjórn Bjargráðasjóðs gerði sér grein fyrir, að ákvörðun um að hætta innheimtu Bjargráðasjóðsgjalds af garðyrkju og gróðurhúsaafurðum orkaði tvímælis, að því er fyrrgreind tímamörk snerti, var ákveðið á fundi stjórnarinnar 26. apríl 1993, að bæta tjón útiræktenda í greininni samkvæmt reglum frá fyrra ári. Var jafnframt litið svo á, að frá 1. september 1992 ættu framleiðendur í garðyrkju- og gróðurhúsarækt, að undanskilinni kartöflurækt, ekki rétt á styrkjum úr Bjargráðasjóði. Í tilviki A var ekki beitt þeirri reglu, að styrkur vegna tjóns á uppskeru garðávaxta takmarkist af greiðslu búnaðarmálasjóðsgjalds tjónþola á fyrri árum.

Þær reglur, er Bjargráðasjóður fer eftir, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 51/1972 um Bjargráðasjóð, miða við að greiðsla viðkomandi búgreinafélags til sjóðsins sé skilyrði þess, að einstakir framleiðendur geti átt rétt til greiðslu úr sjóðnum. Er það í samræmi við ákvæði 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 393/1990, sem gera ekki ráð fyrir, að einstakir framleiðendur geti átt áfram aðild að Bjargráðasjóði, hafi búgreinafélag nýtt sér þá heimild, er felst í 6. gr. laga nr. 41/1990. Með hliðsjón af þeim reglum, sem að framan greinir, og því, að Samband garðyrkjubænda er formlega starfandi búgreinafélag, sem kemur fram fyrir hönd bænda í garðyrkju og gróðurhúsaframleiðslu, er það álit mitt, að úrsögn sambandsins úr Bjargráðasjóði, sem Stéttarsamband bænda bar fram fyrir þess hönd, hafi leitt til þess, að A geti ekki byggt rétt til bóta á 9. gr. laga nr. 51/1972 eftir 1. september 1992.

A kvartar yfir því, að þátttaka H í afgreiðslu stjórnar Bjargráðasjóðs á umsókn hans til Bjargráðasjóðs og ákvörðun bóta vegna tjóns þess, er A varð fyrir, hafi ekki verið lögmæt, þar sem H sé, jafnframt því að vera stjórnarmaður í Bjargráðasjóði, formaður Stéttarsambands bænda. Í ljósi aðildar H að úrsögn Sambands garðyrkjubænda úr Bjargráðasjóði hafi hann því verið vanhæfur til meðferðar málsins sem stjórnarmaður Bjargráðasjóðs.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 51/1972 er stjórn Bjargráðasjóðs skipuð fimm mönnum, þar á meðal formanni Stéttarsambands bænda eða staðgengli hans, sé hann forfallaður. Þegar í lögum er beinlínis gert ráð fyrir því, að fulltrúar tiltekinna hagsmunaaðila eigi sæti í stjórnsýslunefnd, er gengið út frá því, að hagsmunir, sem ætla má að félagsmenn hafi almennt, leiði ekki, einir sér, til vanhæfis þeirra nefndarmanna. Hafi nefndarmaður aftur á móti sjálfur persónulegra hagsmuna að gæta við úrlausn máls, fer um hæfi hans eftir almennum reglum (Alþt. 1992, A-deild, bls. 3289). Almennt séð veldur það ekki vanhæfi, þótt starfsmaður hafi áður haft afskipti af sama máli í starfi sínu, nema framkoma og afstaða starfsmanns hafi þá verið með þeim hætti, að draga megi óhlutdrægni hans í efa, sbr. nú ákvæði 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þeim gögnum, sem lögð hafa verið fram í máli þessu, verður ekki ráðið, að H hafi verið vanhæfur til umfjöllunar um mál A í stjórn Bjargráðasjóðs.

2.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 51/1972 um Bjargráðasjóð, sbr. 2. gr. laga nr. 57/1980, er fjárhagsaðstoð beggja deilda sjóðsins fólgin í veitingu styrkja eða lána, eftir reglum, sem sjóðstjórnin setur. Bjargráðasjóður hefur í framangreindum bréfum til mín, dags. 28. september 1993 og 16. maí 1994, gert grein fyrir þessum reglum og hvernig þeim var beitt við ákvörðun bóta fyrir það tjón, sem A snerti. Þar kemur fram, að hlutfall styrkja sé mismunandi eftir búgreinum, meðal annars með hliðsjón af því, sem nefnd er eigin áhætta, og að fjárhæð styrkveitinga takmarkist almennt af þeim greiðslum, sem það búgreinafélag, er í hlut á, greiði til sjóðsins.

Bjargráðasjóður hefur takmarkað fé til ráðstöfunar. Tel ég, að framangreind sjónarmið, sem sjóðurinn hefur lagt til grundvallar styrkveitingum og gert nánari grein fyrir í nefndum bréfum sínum til mín, séu lögmæt. Verður að fallast á það með stjórn sjóðsins að réttmætt sé að taka tillit til mismunandi áhættu eftir búgreinum. Að mínum dómi hefur ekki komið fram, að á A hafi verið hallað með ólögmætum hætti í nánari útfærslu þeirra sjónarmiða í starfsreglum sjóðsins. Í því sambandi er rétt að benda á, eins og áður hefur komið fram, að við ákvörðun bóta til A var ekki beitt þeirri reglu, að styrkur vegna tjóns á uppskeru garðávaxta takmarkist af greiðslu búnaðarmálasjóðsgjalds tjónþola á fyrri árum.

Könnun mín hefur ekki leitt í ljós, að við ákvörðun styrkfjárhæða til A hafi honum verið mismunað miðað við aðra styrkþega með ólögmætum hætti þannig að reglur stjórnsýsluréttar hafi verið brotnar, sbr. nú 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

VI.

Niðurstaða álits míns, dags. 21. október 1994, var þessi:

"Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að ekki sé grundvöllur fyrir athugasemdum af minni hálfu í tilefni af kvörtun A. Ég tel hins vegar, að birta eigi þær reglur, sem stjórn Bjargráðasjóðs setur samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 51/1972, sbr. 2. gr. laga nr. 57/1980. Hef ég komið tilmælum um það á framfæri við sjóðstjórnina í bréfi, er ég ritaði stjórninni í dag."

VII.

Með bréfi, dags. 2. maí 1995, óskaði ég upplýsinga frá stjórn Bjargráðasjóðs um það, hvort stjórnin hefði farið að þeim tilmælum mínum, að hún beitti sér fyrir því að fyrrnefndar reglur yrðu birtar. Svar stjórnar Bjargráðasjóðs, dags. 10. júlí 1995, hljóðar svo:

"Birting starfsreglna Bjargráðasjóðs

Skv. bréfi yðar dags. 2. maí 1995 er ítrekuð fyrirspurn yðar varðandi birtingu starfsreglna Bjargráðasjóðs. Reglur sjóðsins þ.e. hvað er bætt og af hvaða orsökum kemur fram undir kynningu á þjónustu í Handbók bænda árið 1992, en hefur einhverra hluta vegna verið fellt út í síðari útgáfum, án samráðs við sjóðinn. Óskað verður eftir því við útgefanda Handbókar bænda að áðurnefndar upplýsingar verði skráðar í handbókina. Ljósrit af upplýsingunum fylgir með bréfi þessu.

Jafnframt upplýsist að reglugerð fyrir sjóðinn var sett 21. febrúar 1994.

Upplýsingar um verðlagningu, eigin áhættu og styrkhlutfall hefur ekki verið birt, enda breytilegt skv. 23. gr. reglugerðar sjóðsins frá einum tíma til annars og í mörgum tilfellum er verðlagning ákveðin í lok tjónatímabils."