Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 6526/2011)

Hinn 9. júlí 2011 kvartaði A yfir því að skrifstofa Alþingis hefði ekki orðið við beiðni hans, dags. 12. júní 2011, um rökstuðning á grundvelli 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna ráðningar í starf, en A var á meðal umsækjenda. Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi, dags. 20. júlí 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Umboðsmaður fékk ekki annað séð en að kvörtun A lyti að starfsmannahaldi og stjórnsýslu Alþingis en slíkt er á ábyrgð forseta Alþingis, sbr. 9. gr. laga nr. 55/1991. Því taldi umboðsmaður ekki fyrir hendi skilyrði að lögum til að geta fjallað nánar um kvörtunina.