Opinberir starfsmenn. Starfslok.

(Mál nr. 6097/2010)

A kvartaði yfir ákvörðun þjóðleikhússtjóra um að segja sér upp störfum með vísan til sparnaðar. Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um erindið með bréfi, dags. 22. júlí 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum þjóðleikhússtjóra kom m.a. fram að uppsögnin hefði byggst á rekstrarlegum sjónarmiðum, forgangsröðun og mati á ýtrustu nauðsyn þess að staðan sem A gegndi væri fyrir hendi. Ekkert kom fram í málinu sem benti til þess að staðan hefði verið lögð niður af ástæðum er varðar starfshæfni A eða frammistöðu í starfi. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að draga í efa réttmæti þeirrar ákvörðunar þjóðleikhússtjóra að grípa til aðgerða í formi uppsagna til að bregðast við skertri fjárveitingu til Þjóðleikhússins í fjárlögum. Í því sambandi taldi hann sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá ákvörðun þjóðleikhússtjóra að segja A upp störfum vegna niðurlagningar á stöðu hennar, enda taldi hann sig ekki getað haggað því mati að Þjóðleikhúsið gæti starfað og sinnt lögbundnu hlutverki sínu án stöðunnar. Þá tók umboðsmaður fram að þrátt fyrir að öðrum starfsmönnun hefði verið falið að taka að sér í einhverjum mæli þau verkefni sem A hafði sinnt teldi hann sig ekki hafa forsendur til fullyrða að ómálefnaleg sjónarmið hefðu legið til grundvallar þeirri ákvörðun að leggja niður stöðuna sem A gegndi. Í því sambandi vísaði umboðsmaður m.a. til þess að í málinu lægi ekkert fyrir um að Þjóðleikhúsið hefði bætt við nýjum starfsmanni til að annast verkefnin sem A sinnti. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að uppsögnin hefði brotið í bága við 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafði þar í huga að forstöðumaður opinberrar stofnunar hefði að jafnaði nokkurt svigrúm á grundvelli stjórnunarheimilda sinna til að meta hvort starfsmanni yrðu falin önnur verkefni en hann hefði áður sinnt. Þá fékk umboðsmaður ekki heldur séð miðað við atvik málsins að þörf hefði verið á því vegna rannsóknar þess að veita A kost á að tjá sig um ákvörðunina áður en hún var tekin eða að lög hefðu veitt A andmælarétt þannig að skortur á því að gæta hans gæti leitt til ógildingar á ákvörðuninni. Umboðsmaður lauk málinu en ritaði þjóðleikhússtjóra bréf þar sem hann gerði athugasemd við það að af skýringum þjóðleikhússtjóra mætti ráða að það að A hefði leitað til umboðsmanns Alþingis vegna uppsagnarinnar stæði í vegi því að hún ætti þess kost á að starfa við tiltekin verkefni í þágu Þjóðleikshússins. Umboðsmaður taldi það ekki samrýmast markmiðum laga nr. 85/1997 ef stjórnvald sem kvörtun beindist að léti einstakling sem til sín leitaði gjalda þess með einhverjum hætti. Umboðsmaður taldi jafnframt sérstaka ástæðu til að vekja athygli mennta- og menningarmálaráðherra á þessari afstöðu þjóðleikhússtjóra með það að markmiði að ráðuneytið sæi til þess að Þjóðleikhúsið léti ekki einstaklinga sem leita til umboðsmanns gjalda þess með einhverjum hætti í framtíðarstörfum sínum.