Opinberir starfsmenn. Starfslok.

(Mál nr. 6485/2011)

B kvartaði f.h. A yfir sveitarfélaginu X og innanríkisráðuneytinu. Nánar tiltekið laut kvörtunin að ákvörðun X um að endurráða A ekki í starf eftir að tímabundinn ráðningarsamningur hennar rann út. Þá laut kvörtunin að því að innanríkisráðuneytið hefði vísað frá stjórnsýslukæru vegna ákvörðunarinnar á þeim grundvelli að kærufrestur væri liðinn. Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi, dags. 22. júlí 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í ljósi sjónarmiða að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 beindi umboðsmaður athugun sinni á kvörtuninni eingöngu að úrskurði innanríkisráðuneytisins. Af gögnum málsins varð ráðið að A hefði verið tilkynnt um ákvörðun X í síðasta lagi í lok nóvember 2009 en ákvörðunin var kærð með bréfi, dags. 15. apríl 2011 eða meira en ári eftir ákvörðunartökuna. Umboðsmaður taldi því að innanríkisráðuneytinu hefði ekki verið skylt að sinna kærunni, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá taldi umboðsmaður ljóst að beiðni að X hefði svarað beiðni B um afrit af gögnum málsins hinn 6. desember 2010 og kærufrestur 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga hefði því einnig verið liðinn hvað það atriði varðaði. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við frávísun innanríkisráðuneytisins á málinu en benti B á að hann gæti óskað eftir því á ný við X að fá aðgang að gögnum málsins og yrði hann ósáttur við afgreiðslu X á þeirri beiðni gæti hann leitað til ráðuneytisins innan 14 daga kærufrests samkvæmt 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga. Að fenginni niðurstöðu innanríkisráðuneytisins gæti hann leitað til sín á nýjan leik væri hann ekki sáttur við afgreiðslu ráðuneytisins.