Opinberir starfsmenn. Viðurlög.

(Mál nr. 6417/2011)

A kvartaði yfir synjun ríkislögreglustjóra á beiðni um að fella niður ákvörðun um að veita sér lausn um stundarsakir frá embætti lögreglumanns á grundvelli 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996. Beiðni A byggðist á því að aðstæður væru breyttar þar sem hann hefði, með dómi héraðsdóms, verið sýknaður vegna þess máls sem var tilefni ákvörðunar um að leysa hann frá störfum. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 20. júlí 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður leitaði afstöðu innanríkisráðuneytisins til þess hvort ákvörðun ríkislögreglustjóra væri kæranleg til ráðuneytisins. Innanríkisráðuneytið taldi ákvörðunin fela í sér synjun um endurupptöku máls á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að slík ákvörðun væri kæranleg til ráðuneytisins á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmaður taldi því rétt að A bæri umkvörtunarefnið undir ráðuneytið áður en hann leitaði til sín með málið, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.