Skattar og gjöld. Innheimtuhættir.

(Mál nr. 6511/2011)

A kvartaði yfir því að þrátt fyrir að hafa gengið frá ársuppgjöri við Orkuveitu Reykjavíkur vegna ársins 2011 sökum fyrirhugaðrar dvalar erlendis hefði hann engu að síður móttekið frá Orkuveitunni greiðslukröfur og í framhaldinu tilkynningu um vanskil og fyrirhugaðar innheimtuaðgerðir. Í kvörtuninni kom fram að A hefði staðið í þeirri trú að þar sem hann hefði gert árið upp svo snemma væri óhugsandi að hann lenti í vanskilum og því hlyti að vera um misskilning að ræða. Hann gerði þá kröfu að kröfur OR um viðbótargreiðslur við ársuppgjör kæmu fyrst til greiðslu við lokauppgjör ársins. Umboðsmaður Alþingis lauk meðferð sinni á málinu með bréfi, dags. 18. júlí 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Af kvörtun A og gögnum sem henni fylgdu var ekki að sjá að A hefði leitað til Orkuveitu Reykjavíkur með kvörtunina og fengið afstöðu orkuveitunnar til hennar. Umboðsmaður taldi rétt að A leitaði til Orkuveitu Reykjavíkur og skyti, eftir atvikum, málinu til æðra stjórnvalds, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, áður en hann tæki afstöðu til þess hvort kvörtunin væri tæk til frekari athugunar hjá sér.