Skattar og gjöld. Stöðvunarbrotsgjald.

(Mál nr. 6422/2011)

A kvartaði yfir gjaldi vegna stöðubrots sem var lagt á hann fyrir að leggja bifreið sinni með hægri hjól uppi á kanti við tiltekna götu í Reykjavíkurborg. A taldi Bílastæðasjóð Reykjavíkurborgar ekki hafa gætt meðalhófs og andmælaréttar sem skyldi og benti á að kantsteinninn hefði ekki verið sýnilegur fyrir snjó. Þá taldi A óeðlilegt að „sekt, sektarboð, úrskurður andmæla, ákæra, dómur og framkvæmd dóms“ væri á sömu hendi. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á kvörtuninni með bréfi, dags. 22. júlí 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. og a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í ljósi ljósmynda sem lágu fyrir af stöðu bifreiðarinnar umrætt sinn og almennum reglum umferðarlaga taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu Bílastæðasjóðs að tilefni hefði verið til að leggja gjaldið á A. Varðandi fyrirkomulag við álagningu gjaldsins, þá benti umboðsmaður á að álagningin fæli í sér beitingu stjórnsýsluviðurlaga, en ekki beitingu refsingar, og að mælt væri fyrir um fyrirkomulagið í lögum. Starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, en honum væri þó fengin heimild til að tilkynna Alþingi um meinbugi á gildandi lögum, sbr. 11. gr. laganna. Ekki væri hægt að kvarta vegna slíkra atriða heldur ákvæði umboðsmaður sjálfur að eigin frumkvæði hvort heimildin skyldi nýtt, sbr. 5. gr. laganna. Í ljósi þess að íslenskir dómstólar hafa talið það samrýmast ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu að sama stjórnvald rannsaki mál og taki ákvörðun um beitingu stjórnsýsluviðurlaga, enda sé kostur á að bera málið undir dómstól með fullar endurskoðunarheimildir, sbr. H.1991, bls. 1690, taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka álitaefnið til athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður lauk því málinu en upplýsti A um að hann hefði nú til almennrar athugunar lögmæti tiltekinna ákvæða í gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavíkurborg. Þá ákvað umboðsmaður að rita Bílastæðasjóði Reykjavíkur bréf þar sem hann gerði athugasemd við að í ákvörðunum Bílastæðasjóðs Reykjavíkur væri ranglega vísað til úrlausna umboðsmanns Alþingis sem úrskurða. Hann taldi einnig að tilvísun stjórnvalda í bréf umboðsmanns Alþingis, þar sem væri að finna afstöðu umboðsmanns til matskenndra og atviksbundinna atriða, án þess að jafnframt væru raktar forsendur hennar þannig að viðtakandi gæti ráðið af samhenginu hvort atvik í máli hans væru sambærileg, væri ekki í samræmi við sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti og mæltist til þess að framvegis yrði betur gætt að því. Umboðsmaður taldi jafnframt að ákvörðun í máli A hefði ekki verið rökstudd með fullnægjandi hætti, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því hefði borið að leiðbeina honum um heimild til að fá rökstuðning, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Í ljósi þess að umboðsmaður hafði skömmu áður komið sambærilegri ábendingu á framfæri við Bílastæðasjóð, en ákvörðun í máli A var engu að síður efnislega samhljóða þeirri ákvörðun sem varð tilefni þeirrar ábendingar, ákvað umboðsmaður að senda ábendingarbréfið til Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborg til upplýsingar.