Svör við erindum. Aðgangur að gögnum.

(Mál nr. 6268/2011)

A og B kvörtuðu yfir skorti á svörum við erindum til umhverfisráðuneytisins og Umhverfisstofnunar. Annars vegar var um að ræða beiðni um friðun ábýlisjarðar A og B og ábendingu um að arðgreiðsla vegna ágangs hreindýra hefði ekki borist þeim. Hins vegar var um að ræða erindi til Umhverfisstofnunar þar sem A og B óskuðu eftir upplýsingum um hver hefði kært þau fyrir að banna hreindýraveiðar á landi sínu. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 22. júlí 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum umhverfisráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að beiðni um greiðslu vaxta á hreindýraarð hefði verið framsend Umhverfisstofnun til afgreiðslu og að málið væri þar til athugunar. Þá kom fram að beiðni um friðun ábýlisjarðarinnar hefið borist og óskað hefði verið eftir afstöðu A og B til tiltekinna atriða fyrir 15. ágúst 2011. Í skýringum Umhverfisstofnunar kom fram að stofnuninni hefðu ekki borist kærur heldur fengið ábendingar símleiðis sem ekki hefðu veið skráðar í málagrunn stofnunarinnar og því væri ekki mögulegt að veita A og B umbeðnar upplýsingar. Einnig kom fram sú afstaða stofnunarinnar að ekki væri um að ræða eiginleg gögn í skilningi stjórnsýslu laga eða upplýsingalaga. Þá sagði að erindi A og B um vaxtagreiðslur væri til skoðunar. Afrit af svarbréfi Umhverfisstofnunar til A og B fylgdi skýringunum til umboðsmanns. Þar sem kvörtun A og B laut að því að erindum þeirra hefði ekki verið svarað lauk umboðsmaður málinu en tók fram að ef afgreiðsla á erindunum drægist frekar gætu þau leitað til sín að nýju. Þá ritaði umboðsmaður Umhverfisstofnun bréf þar sem hann benti á að af gögnum málsins yrði ekki annað séð en að til hefði staðið að taka ákvörðun um að úthluta ekki arði til jarðar A og B á grundvelli umræddra ábendinga og því væri ekki hægt að fallast á að upplýsingarnar gætu ekki talist gögn í skilningi ákvæða stjórnsýslulaga eða upplýsingalaga. Í því sambandi taldi umboðsmaður rétt að Umhverfisstofnun hefði framvegis í huga að ef stofnuninni berast munnlegar ábendingar sem kunna að leiða til töku stjórnvaldsákvörðunar ber að skrá slíkar upplýsingar og þá m.a. nafn þess sem setur þær fram, sbr. 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, og að til þess kann að koma að stjórnvaldi beri skylda til að veita aðila máls aðgang að slíkum upplýsingum, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.