Ríkisábyrgð. Synjun ríkisábyrgðar á launakröfu í þrotabúi.

(Mál nr. 276/1990)

Máli lokið með áliti, dags. 5. apríl 1991.

A kvartaði yfir því, að félagsmálaráðuneytið hefði ekki tekið sjálfstæða og rökstudda afstöðu til þess, hvort launakrafa sín í þrotabú B skyldi greidd úr ríkissjóði samkvæmt lögum nr. 23/1985 um ríkisábyrgð á launum. Umboðsmaður taldi, að lög nr. 23/1985 fælu félagsmálaráðherra sjálfstætt úrskurðarvald um það, hvort skilyrði ríkisábyrgðar á launum væru fyrir hendi eða ekki og að hann væri óbundinn af umsögn skiptaráðanda um kröfuna. Í umsögninni kom fram, að hann taldi A falla utan ríkisábyrgðar skv. c-lið 5. gr. laga nr. 23/1985, þar sem hann hefði starfað sem bókari og fjármálastjóri á skrifstofu B. Umboðsmaður tók fram, að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 23/1985 skyldi synjun um greiðslu kröfu vera rökstudd. Rökstuðningur ráðuneytisins, eins og hann var settur fram, yrði ekki skilinn öðruvísi en að félagsmálaráðuneytið hefði farið eftir umsögn skiptastjórans, án þess að leysa sjálfstætt úr því, hvort c-liður 5. gr. laga nr. 23/1985 hefði átt við um A. Þá hefði ráðuneytið ekki heldur tekið á þeim meginröksemdum A, að umrætt ákvæði ætti ekki við. Var niðurstaða umboðsmanns sú, að félagsmálaráðuneytinu hefði borið að vanda betur til rökstuðnings síns og beindi hann þeim tilmælum til þess, að það tæki kröfu A til meðferðar á ný.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 17. apríl 1990 lagði A fram kvörtun yfir því, að félagsmálaráðuneytið hefði ekki tekið sjálfstæða og rökstudda afstöðu til þess, hvort launakrafa hans í þrotabú B skyldi greidd úr ríkissjóði samkvæmt lögum nr. 23/1985 um ríkisábyrgð á launum.

Með ráðningar- og starfssamningi, dags. 19. desember 1988, réðst A til starfa hjá fyrirtæki B. Samkvæmt samningnum bar A starfsheitið gjaldkeri. Í starfslýsingu var tekið fram að um væri að ræða "gjaldkerastörf, fjármálastjórn, bókhald þar með talið birgðabókhald og símvarsla". Hinn 13. mars 1989 var bú B úrskurðað gjaldþrota. Með bréfi, dags. 24. ágúst 1989, krafði lögmaður A ríkissjóð um greiðslu á ógreiddum launum og orlofi á grundvelli laga nr. 23/1985. Að beiðni félagsmálaráðuneytisins lét skiptastjóri hinn 12. október 1989 uppi eftirfarandi umsögn um launakröfuna:

"Það skal upplýst að kröfuhafinn [A] starfaði sem bókari og fjármálastjóri á skrifstofu þrotamanns frá áramótum s.l. Ekki er kunnugt um hvort atvik þau er getur í 5. gr. laga nr. 23/1985 varða aðra kröfuhafa."

Með bréfi, dags. 20. október 1989, gerði lögmaður A athugasemdir við umsögn skiptaráðandans. Í athugasemdum lögmannsins kom m.a. eftirfarandi fram:

"Á það skal bent að fjármálastjórn [A] hafði engin áhrif á gjaldþrotið. Hann hafði einungis starfað við fyrirtækið í rúma tvo mánuði er það var lýst gjaldþrota og staðan var raunverulega ekki ljós fyrr en fyrir lágu ársreikningar frá löggiltum endurskoðendum [...] þann 22. feb. 1989.

Af áðurgreindu tilefni er komið á framfæri við yður andmælum gegn því að 5. gr. laga nr. 23/1985 eigi hér við og varla er það sanngjörn túlkun á því lagaákvæði að sá sem kemur inn í starf með þeim hætti er [A] gerði er hann réðist til [B] og vann aðeins bráðnauðsynleg störf við bókhald og fjárvörslu...

Hinn 7. nóvember 1989 ritaði lögmaður A félagsmálaráðuneytinu á ný bréf, þar sem hann vísaði til bréfs síns frá 20. október 1989. Í bréfi lögmannsins sagði svo:

"Meðfylgjandi er ljósrit af ráðningarsamningi [A] frá 19. des. 1988. Þar kemur fram að [A] er ráðinn sem gjaldkeri og "fjármálastjóri", auk bókhaldsstarfa. Á þeim skamma tíma sem [A] starfaði fóru janúar og fyrri hluti febrúarmánaðar í það að koma reiðu á bókhaldið og vinna það til færslu hjá endurskoðanda.

[A] hafði enga forsendu til þess að sjá stöðuna fyrr en 22. febrúar er ársreikningarnir bárust frá endurskoðanda. Tveim dögum eftir það fór [B] til sjúkradvalar í Reykjavík. [A] hélt áfram starfi sínu og reyndi að fleyta fyrirtækinu áfram, en eftir athugun á stöðunni í byrjun mars varð ljóst að gjaldþrot var óhjákvæmilegt. Gjaldþrota var beiðst 13. mars 1989.

Ég tel ákvæði 5. gr. laga nr. 23/1985 ekki eiga við í tilviki [A], þar sem hann hafði ekki þær forsendur til yfirsýnar yfir reksturinn sem 5. gr. vísar til, þar sem hann var nýráðinn starfsmaður og sinnti aðallega bókhaldsstörfum. Um eiginlega fjármálastjórn var ekki að ræða á þessu tímabili, allt kapp var lagt á að koma bókhaldinu í það horf að hægt væri að meta stöðu fyrirtækisins.

Þess er vænst að [A] fái án frekari tafar greidd laun skv. viðurkenndri kröfu sinni til þrotabúsins skv. ákvæðum laga nr. 23/1985.

Ef greiðslu ríkissjóðs verður hafnað er krafist úrskurðar ráðuneytisins um kröfu þess án tafar."

Félagsmálaráðuneytið svaraði lögmanni A, með bréfi, dags. 12. desember 1989, en þar kom eftirfarandi fram:

"Með bréfi dags. 24. ágúst sl. fóruð þér þess á leit að ríkissjóður greiddi kröfu umbjóðanda yðar, [A], í þb. [B].

Af þessu tilefni skal yður hér með tjáð að samkvæmt upplýsingum skiptastjóra búsins gegndi umbjóðandi yðar störfum sem bókari og fjármálastjóri hjá gjaldþrotaaðila og þrátt fyrir athugasemdir yðar í bréfi dags. 7. nóvember sl. telur skiptastjórinn ekki tilefni til að breyta afstöðu sinni.

Með hliðsjón af framansögðu telur ráðuneytið kröfu umbjóðanda yðar falla utan ríkisábyrgðar sbr. c.-lið 5. gr. laga nr. 23/1985."

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 25. apríl 1990 fór ég þess á leit, að félagsmálaráðuneytið skýrði afstöðu sína til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Í skýringum ráðuneytisins frá 2. maí 1990 sagði svo:

"Með bréfi, dags. 25. f.m. óskið þér, hr. umboðsmaður eftir því, að ráðuneytið skýri afstöðu sína til kvörtunar [A] vegna afgreiðslu ráðuneytisins á máli hans.

Af þessu tilefni skal eftirfarandi tekið fram:

1. Í 5. gr. laga nr. 23/1985 um ríkisábyrgð, sbr. lög nr. 8/1990 segir svo:

"Eftirtaldir launþegar geta þó ekki krafið ríkissjóð um greiðslu krafna samkvæmt a-, b-, c-, og d-liðum 1. mgr. 4. gr."

Í c-lið sömu greinar segir:

"Forstjóri gjaldþrotafélags eða aðrir þeir, sem vegna starfa sinna hjá félaginu mega hafa haft þá yfirsýn yfir fjárhag þess að þeim mátti ekki dyljast að gjaldþrot félagsins hafi verið yfirvofandi á þeim tíma sem unnið var fyrir vinnulaunum."

2. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 23/1985 ber ráðuneytinu að leita umsagnar skiptaráðanda í hlutaðeigandi þrotabúi. Meðal þess sem spurt er um er hvort kunnugt sé um að þau atvik sem um getur í 5. gr. laganna varði kröfu. Í umsögn bústjóra um mál það sem hér um ræðir, dags. 12. október 1989, segir:

"Það skal upplýst að kröfuhafinn [A] starfaði sem bókari og fjármálastjóri á skrifstofu þrotamanns frá áramótum sl. Ekki er kunnugt um hvort atvik þau er getur í 5. gr. laga nr. 23/1985 varða aðra kröfuhafa."

3. Framangreindu áliti bústjóra mótmælti [D] hrl. f.h. umbjóðanda síns með bréfum dags. 20. október og 7. nóvember 1989. Rétt þótti að gefa bústjóra kost á því að tjá sig um mótmælin áður en ráðuneytið tæki endanlega afstöðu til málsins. Í umsögn bústjóra komu fram sömu upplýsingar og áður um störf kröfuhafa. Hins vegar segist bústjóri ekki "leggja mat á þá túlkun [D] hrl. á 5. gr. laga nr. 23/1985 að ákvæðið eigi ekki við um störf [A]".

4. Af framansögðu telur ráðuneytið ljóst að það hafi tekið sjálfstæða afstöðu til kröfu [A] og rökstutt hana með tilvísun til c-liðar 5. gr. laga nr. 23/1985 með sama hætti og tíðkast hefur í öðrum sambærilegum tilfellum."

Með bréfi, dags. 4. maí 1990, gaf ég A kost á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerð félagsmálaráðuneytisins, en engar slíkar athugasemdir bárust.

III. Niðurstaða.

Niðurstaða álits míns, dags. 5. apríl 1991, er svohljóðandi:

"Í kvörtun sinni kvartar A yfir því, að félagsmálaráðuneytið hafi ekki tekið sjálfstæða afstöðu til þess, hvort launakrafa hans í þrotabú B skyldi greiðast úr ríkissjóði skv. lögum nr. 23/1985, en ráðuneytið skjóti sér þess í stað á bak við upplýsingar skiptastjóra. Telur A sig eiga rétt á því að fá rökstuddan úrskurð ráðuneytisins, þar sem kröfu hans hafi verið hafnað.

Kvörtun A lýtur eingöngu að því, að rökstuðningur ráðuneytisins fyrir því að hafna kröfu hans um ríkisábyrgð hafi verið ófullnægjandi og rökstuðningurinn bendi til þess að ráðuneytið hafi ekki tekið sjálfstæða ákvörðun. Þegar A gerði kröfu um greiðslu launanna úr ríkissjóði, voru í gildi lög nr. 23/1985 um ríkisábyrgð á launum, en núgildandi lög eru lög nr. 88/1990, sem eru endurútgáfa eldri laga með þeim breytingum, sem gerðar voru með lögum nr. 7/1990. Í 8. gr. laga nr. 23/1985 segir, að þegar félagsmálaráðherra hafi borist greiðslukrafa samkvæmt lögum þessum, skuli hann leita umsagnar skiptaráðanda í búi vinnuveitandans um eftirtalin atriði: (a) hvort og að hve miklu leyti viðurkenndur hafi verið forgangsréttur kröfunnar í búið, (b) hvenær búið hafi verið tekið til skipta og hver birtingardagur innköllunar hafi verið, er ræður lokum kröfulýsingarfrests, og (c) hvort kunnugt sé að þau atvik, er í 5. gr. getur, varði kröfuna. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 23/1985 skal félagsmálaráðherra innan fjögurra vikna taka ákvörðun um, hvort krafan verði greidd úr ríkissjóði.

Ég tel, að lög nr. 23/1985 feli félagsmálaráðherra sjálfstætt úrskurðarvald um það, hvort skilyrði ríkisábyrgðar á launum séu fyrir hendi eða ekki og að hann sé óbundinn af umsögn skiptaráðanda um kröfuna. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 23/1985 skal synjun um greiðslu kröfu vera rökstudd.

Eins og fram hefur komið, hafnaði ráðuneytið kröfu um ríkisábyrgð með bréfi 12. desember 1989 með vísan til c-liðar 5. gr. laga nr. 23/1985. Í rökstuðningi ráðuneytisins segir í tilefni af kröfu A:

"Af þessu tilefni skal yður hér með tjáð að samkvæmt upplýsingum skiptastjóra búsins gegndi umbjóðandi yðar störfum sem bókari og fjármálastjóri hjá gjaldþrotaaðila og þrátt fyrir athugasemdir yðar í bréfi dags 7. nóvember sl. telur skiptastjórinn ekki tilefni til að breyta afstöðu sinni.

Með hliðsjón af framansögðu telur ráðuneytið kröfu umbjóðanda yðar falla utan ríkisábyrgðar sbr. c-lið 5. gr. laga nr. 23/1985."

Í bréfi félagsmálaráðuneytisins til mín, dags. 2. maí 1990, er fullyrt að ráðuneytið hafi tekið sjálfstæða ákvörðun, enda hafi komið fram í umsögn skiptastjóra, að hann legði ekki mat á þá túlkun lögmanns A að c-liður 5. gr. laga nr. 23/1985 ætti ekki við um störf A. Hvað sem líður skýringum ráðuneytisins, tel ég að rökstuðningurinn, eins og hann er settur fram í bréfi ráðuneytisins til A frá 12. desember 1989, verði ekki skilinn öðru vísi en að félagsmálaráðuneytið hafi farið eftir umsögn skiptastjórans, án þess að leysa sjálfstætt úr því, hvort c-liður 5. gr. laga nr. 23/1985 hafi átt við um A. Í úrlausn sinni tekur ráðuneytið heldur ekki á þeim meginröksemdum, sem lögmaður A færði fram fyrir því að umrætt ákvæði ætti ekki við. Ég tel í samræmi við þetta, að ráðuneytinu hafi borið að vanda betur til rökstuðnings síns að þessu leyti.

Af þeim ástæðum, sem að framan greinir, eru það tilmæli mín að félagsmálaráðuneytið taki umrædda kröfu A til meðferðar á ný."

IV. Viðbrögð stjórnvalda.

Í tilefni af framangreindu áliti mínu barst mér bréf frá félagsmálaráðuneytinu, dags. 3. maí 1991. Það hljóðar svo:

"Með bréfi, dags. 5. f.m., beinduð þér, hr. umboðsmaður, þeim tilmælum til þessa ráðuneytis að tekin yrði til endurskoðunar krafa [A] í þrotabú [B].

Af þessu tilefni skal yður hér með tjáð að á grundvelli nýrra gagna frá lögmanni [A], sem leiða ótvírætt í ljós að nefndur [A] starfaði ekki í þjónustu [B] frá 1. janúar 1988 svo sem ráða mátti af ráðningarsamningi heldur frá 1. janúar 1989 til gjaldþrotadags, hefur ráðuneytið ákveðið að falla frá fyrri synjun. Mun því krafa [A] greidd úr ríkissjóði í samræmi við ákvæði laga nr. 23/1985 um ríkisábyrgð á launum."