Svör við erindum. Aðgangur að gögnum.

(Mál nr. 6491/2011)

Hinn 20. júní kvartaði A yfir því að tollstjóri hefði ekki svarað erindi sínu, dags. 2. júní 2011, þar sem hann óskaði eftir því að fá afrit af öllum tölvubréfum og gögnum er tengdust tiltekinni póstsendingu hans. Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um erindi A með bréfi, dags. 4. júlí 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum tollstjóra kom fram að öll gögn málsins hefðu verið send A 23. júní 2011 og honum tilkynnt formlega um það 27. júní 2011. Umboðsmaður leit því svo á að A hefði fengið leiðréttingu máls síns og taldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna þessa. Vegna beiðni um að leitað yrði eftir því að tilgreindur starfsmaður tollstjóra hlyti áminningu fyrir brot í starfi tók umboðsmaður fram að það félli utan starfssviðs umboðsmanns að taka ákvörðun um að áminna opinberan starfsmann eða víkja honum úr starfi en benti A á að hann gæti komið umkvörtun sinni á framfæri við tollstjóra teldi hann ástæðu til.