Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6420/2011)

Hinn 5. maí 2011 kvartaði A yfir því að Neytendastofa hefði ekki svarað erindum sínum er lytu að háttsemi tiltekins fyrirtækis vegna samningsgerðar við sig. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á kvörtun A með bréfi, dags. 4. júlí 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Af erindinu varð ráðið að A hefði beint erindum sínum til Neytendastofu annars vegar í gegnum „Rafræna Neytendastofu“ 5. maí 2010 og hins vegar með bréfi til sviðsstjóra neytendaréttarsviðs, dags. 29. júní 2010. Í skýringum Neytendastofu kom fram að öllum fjórum erindum A hefði verið svarað með formlegum hætti 25. maí 2011. Niðurstaðan hefði verið að ekki væri ástæða til frekari aðgerða en A hefðu verið veittar leiðbeiningar um málskotsheimild til áfrýjunarnefndar neytendamála. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til frekari umfjöllunar fyrr en afstaða áfrýjunarnefndarinnar lægi fyrir, sbr. 4. gr. laga nr. 62/2005 og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.