Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6441/2011)

Hinn 16. maí 2011 kvartaði A yfir því að Skipulagsstofnun hefði ekki svarað erindum sínum frá apríl 2006 og maí 2007 þar sem hún fór fram á að tiltekin mannvirki, sem hún taldi hafa verið reist í óleyfi, yrðu fjarlægð á grundvelli 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 4. júlí 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum Skipulagsstofnunar kom fram að talið hefði verið að fyrra erindið hefði verið sent í upplýsingaskyni og ekki væri venja að svara slíku. Í tilefni af síðara erindinu hefði verið óskað upplýsinga frá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar um hvort framkvæmdirnar væru byggingarleyfisskyldar og þá hvort veitt hefði verið leyfi fyrir þeim. Þær upplýsingar hefðu fengist að málið væri þar til meðferðar. Endanlegt svar Reykjavíkurborgar hefði ekki borist og láðst hefði að ítreka erindið en það hefði nú verið gert og afrit af ítrekuninni hefði jafnframt verið sent A. Umboðsmaður lauk því málinu en ritaði Skipulagsstofnun bréf þar sem hann gerði athugasemd við að fjögur ár hefðu liðið frá því að Skipulagsstofnun barst svar um að málið væri til meðferðar þar til erindið var ítrekað og benti stofnuninni á að huga framvegis betur að eftirfylgni mála til að geta afgreitt erindi í samræmi við meginreglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.