Svör við erindum. Viðtal við ráðherra eða forstöðumann.

(Mál nr. 6472/2011)

A kvartaði yfir því að landlæknisembættið hefði ekki staðfest skriflega móttöku á kvörtunarbréfi hans. Af kvörtuninni og gögnum málsins varð ráðið að A væri ósáttur við að embættið hefði ekki svarað ítrekuðum beiðnum hans um fund með landlækni til að fá leiðbeiningar og skýringar í tilefni af tilteknu máli. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 22. júlí 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum landlæknisembættisins kom fram að móttaka kvörtunarbréfsins hefði verið staðfest í símtali A við starfsmann landlæknis. Þá hefði A verið gefinn kostur á að tala við sérfræðing hjá embættinu en hann hefði hafnað því. Nú hefðu A og B verið boðuð til fundar á með landlækni og tilgreindum sérfræðingi. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins en tók fram að ef A yrði ósáttur við afgreiðslu embættisins á erindinu eða ef málið tefðist úr hömlu gæti hann leitað til sín að nýju. Þá vakti umboðsmaður athygli á að heimilt væri að kæra meðferð landlækns á málum sem falla undir 12. gr. laga nr. 41/2007 til velferðarráðherra, sbr. 6. mgr. 12. gr.