Umhverfismál. Meðhöndlun úrgangs.

(Mál nr. 6423/2011)

A kvartaði yfir því að sveitarfélagið X hefði ekki farið að úrskurði úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998. Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um málið með bréfi, dags. 18. júlí 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum sveitarfélagsins til umboðsmanns kom fram að það teldi sig hafa farið eftir úrskurðinum með því að grípa til nánar tiltekinna aðgerða. Umboðsmaður fékk því ekki betur séð en að ágreiningur væri á milli A og X um hvort þær aðgerðir, sem gripið hafði verið til í tilefni af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, væru í samræmi við niðurstöðuna og uppfylltu kröfu 4. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 737/2003. Umboðsmaður taldi því rétt að A freistaði þess að bera kvörtunarefnið undir úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 og eftir atvikum undir innanríkisráðuneytið, sbr. 102. gr. laga nr. 45/1998, áður en leitað væri til umboðsmanns með málið, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.