Landbúnaður. Búvörusamningur. Ákvörðun um greiðslumark lögbýlis.

(Mál nr. 721/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 21. mars 1994.
A kvartaði yfir þeirri ákvörðun landbúnaðarráðherra og Framleiðsluráðs landbúnaðarins að breyta fyrri ákvörðun um greiðslumark lögbýlisins H. Taldi A að með þessu hefði verið brotið gegn samningsbundnum ákvæðum búvörusamnings frá 11. mars 1991. Í bréfi til A benti umboðsmaður á að í tilkynningu Framleiðsluráðs hefði ekki verið um að ræða endanlegar upplýsingar um þann fullvirðisrétt sem greiðslumark jarðarinnar yrði miðað við. Síðar hefði heildargreiðslumark kindakjöts verið ákveðið beint í lögum nr. 5/1992.

Í bréfi mínu til A, dags. 21. mars 1994, tók ég þetta fram:

"I.

Í rökstuðningi fyrir kvörtun yðar vísið þér til þess, að samkvæmt 2. gr. búvörusamnings landbúnaðarráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Stéttarsambands bænda, dags. 11. mars 1991, sé kveðið svo á, að heildargreiðslumark vegna framleiðslu næsta verðlagsárs skuli ákveðið fyrir 15. september ár hvert. Þér bendið á, að í samræmi við þetta ákvæði samningsins og samkvæmt heimild í reglugerð nr. 313/1991, einkum 2. og 14. gr., hafi Framleiðsluráð landbúnaðarins sent yður bréf, dags. 30. september 1991, sem handhafa fullvirðisréttar H. Þar komi fram, að útreikningur og ákvörðun á greiðslumarki býlisins verðlagsárið 1992/1993 hafi átt að vera 8.654,1 kg, þ.e. 475,5 ærgildisafurðir. Með bréfi, dags. 23. mars 1992, hafi þessari ákvörðun verið breytt og greiðslumarkið fært niður í 8.128,5 kg. Þessa ákvörðun hafi Framleiðsluráð byggt á nýrri reglugerð, sem sett hafi verið af landbúnaðarráðherra 5. mars 1992, reglugerð nr. 87/1992, um greiðslumark sauðfjárafurða á lögbýlum og beinar greiðslur til bænda verðlagsárið 1992-1993.

Þér teljið, að landbúnaðarráðherra hafi með setningu reglugerðar nr. 87/1992 brotið tilvitnaðan búvörusamning, einkum 2. gr. hans, og að ákvörðun Framleiðsluráðs, sem fram kemur í bréfi þess frá 23. mars 1992 hafi ekki verið í samræmi við búvörusamninginn. Síðan segir í kvörtun yðar:

"Ljóst er að tímasetning sú sem sett er í 2. gr. búvörusamningsins er veigamikil forsenda hans og sett í september því á þeim tíma eru sauðfjárbændur að taka ákvörðun um hversu margt fé þeir ætli að setja á til fóðrunar og þá skiptir máli fyrir þá að vita hvert greiðslumark þeirra verður á komandi verðlagsári og fækka því eða fjölga fé sínu í samræmi við það. Með því að breyta greiðslumarkinu komið fram í endaðan marsmánuð, þegar sauðfjárbændur eru búnir að kosta meginhlutanum til við framleiðslu á afurðunum veldur það bændum ómældu tjóni. Hér er því um mjög svo íþyngjandi aðgerð að ræða og í andstöðu við samningsbundið ákvæði."

Í kvörtun yðar kemur fram, að þér hafið ekki viljað una þessari ákvörðun og því borið málið undir Framleiðsluráð samkvæmt heimild í 14. gr. reglugerðar nr. 313/1991. Framleiðsluráð hafnaði erindi yðar, en skaut málinu til úrlausnar hjá úrskurðarnefnd greiðslumarks. Nefndin kvað síðan upp úrskurð í málinu 29. júlí 1992. Þar segir, að nefndinni sé ljóst að nokkurs misræmis gæti í texta laganna og samningsins um ákvörðun greiðslumarks fyrir verðlagsárið 1992-1993, en nefndarmenn séu hins vegar sammála um, að valdsvið nefndarinnar sé samkvæmt lögum svo þröngt, að það falli utan þess að taka afstöðu til meintra frávika laganna og samningsins. Nefndin staðfestir síðan, að útreikningar og ákvörðun Framleiðsluráðs um greiðslumark jarðarinnar H fyrir verðlagsárið 1992-1993 séu í samræmi við ákvæði laganna, og hafnaði nefndin með því kröfu yðar.

Þér bendið jafnframt á, að enginn fyrirvari hafi verið í tilvitnuðu bréfi Framleiðsluráðs landbúnaðarins frá 30. september 1991 um rétt þess til að breyta ákvörðun um greiðslumark jarðarinnar H og að ekkert hafi þar komið fram, sem hafi gefið yður tilefni til að ætla annað en þessi ákvörðun gilti sem greiðslumark verðlagsárið 1992-1993, enda engar heimildir til annars í gildandi samningi og reglum. Með þessu teljið þér, að stjórnvöld hafi brotið á yður.

II.

Með bréfi, dags. 5. janúar 1993, til landbúnaðarráðherra óskaði ég í samræmi við 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis eftir því, að ráðuneyti hans skýrði viðhorf sitt til kvörtunar yðar og léti mér í té gögn málsins. Eftir að þessi beiðni hafði verið ítrekuð með bréfum, dags. 14. apríl og 13. maí 1993, barst svar ráðuneytisins í bréfi, dags. 21. maí 1993, en bréf þetta hafið þér fengið í ljósriti.

Ég gaf yður með bréfi, dags. 25. maí 1993, kost á að senda mér athugasemdir við bréf ráðuneytisins og þær bárust með bréfi, dags. 15. júní 1993.

III.

Búvörusamningur sá frá 11. mars 1991, sem þér vísið til, var gerður á grundvelli a-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 46/1985 um framleiðslu, sölu og verðlagningu á búvörum. Með samningi þessum var samið um breytt fyrirkomulag á stjórnun búvöruframleiðslunnar og þannig horfið frá svonefndum fullvirðisrétti til greiðslumarks. Samkvæmt 11. gr. samningsins gildir hann, að því er varðar hið nýja greiðslumarkskerfi, fyrir verðlagsárin 1. september 1992 til 31. ágúst 1998, en ákvæði viðauka I um aðlögun fullvirðisréttar í sauðfjárframleiðslu að innanlandsmarkaði giltu frá 1. maí 1991 til 15. september 1992.

Samningurinn er af hálfu landbúnaðarráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands undirritaður með fyrirvara um að Alþingi samþykki nauðsynlegar lagabreytingar. Með 38. gr. lánsfjárlaga nr. 26/1991 fyrir árið 1991 var aflað heimildar Alþingis til greiðslu á skuldbindingum ríkissjóðs vegna aðlögunar fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði. Á grundvelli þess ákvæðis og laga nr. 46/1985 var sett reglugerð nr. 313 frá 2. júlí 1991 um aðlögun fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði.

Með lögum nr. 5 frá 28. febrúar 1992 voru síðan gerðar breytingar á lögum nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum vegna ákvæða búvörusamningsins frá 11. mars 1991 um sauðfjárafurðir, bæði um aðlögun fullvirðisréttar og stjórn framleiðslunnar 1991-1998 með greiðslumarki. Í kjölfar þessara laga var sett reglugerð nr. 87 frá 5. mars 1992 um greiðslumark sauðfjárafurða á lögbýlum og beinar greiðslur til bænda verðlagsárið 1992-1993.

Kvörtun yðar byggið þér annars vegar á því, að í upphafsákvæði 1. mgr. 2. gr. búvörusamnings frá 11. mars 1991 segi:

"Heildargreiðslumark skal endanlega ákveðið fyrir 15. september ár hvert vegna framleiðslu næsta verðlagsárs."

Hins vegar byggið þér á því, að tilkynning Framleiðsluráðs landbúnaðarins, dags. 30. september 1991, hafi í samræmi við nefnt ákvæði búvörusamningsins falið í sér endanlega tilkynningu til yðar um greiðslumark jarðarinnar H fyrir verðlagsárið 1992-1993.

Í tilkynningu Framleiðsluráðs frá 30. september 1991 sagði:

"Samkvæmt sérstakri skrá Framleiðsluráðs landbúnaðarins vegna aðlögunar fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði, sbr. reglugerð nr. 313/1991 sem send var sauðfjárframleiðendum í fréttabréfi SB nr. 3/1991, er fullvirðisréttur yðar, að teknu tilliti til umsókna um sölu fullvirðisréttar til ríkissjóðs sem samþykktar hafa verið til afgreiðslu og fyrri niðurfærslu þar sem það á við, sem hér segir í ærgildum:

Nýtanlegur Bundinn

réttur réttur

Fullvirðisréttur f. sölu og niðurf. 494,0 0

Sala fullv.r. til ríkissjóðs 0 0

Fyrri niðurfærsla 18,5 0

Fullv.réttur við lok fyrri niðurfærslu 475,5 0

Athugasemdir við ofangreindar niðurstöður óskast sendar Framleiðsluráði landbúnaðarins innan 30 daga frá dags. þessa bréfs."

Í síðari hluta tilkynningarinnar er tekið fram, að fullvirðisréttur eftir fyrri niðurfærslu hafi engin áhrif á framleiðslurétt þá um haustið og síðan er fjallað um þörf á förgun áa vegna niðurfærslunnar.

Samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 313/1991 bar Framleiðsluráði landbúnaðarins að tilkynna framleiðendum um fullvirðisrétt þeirra við lok fyrri niðurfærslu. Framangreind tilkynning frá 30. september 1991 var send í samræmi við þetta ákvæði.

Eins og fram kemur í bréfi landbúnaðarráðuneytisins frá 21. maí 1993, fór aðlögun fullvirðisréttar í sauðfjárframleiðslu að innanlandsmarkaði fram í tveimur áföngum. Síðari hluti þessarar aðlögunar stóð til 31. ágúst 1992. Í 2. mgr. 3. gr. búvörusamningsins er sérstakt ákvæði um greiðslumark lögbýla fyrir verðlagsárið 1992-1993. Þar segir:

"Greiðslumark hvers lögbýlis verður í upphafi, þ.e. fyrir slátrun haustið 1992, jafnt fullvirðisrétti þess, eins og hann verður að lokinni aðlögun að innanlandsmarkaði 31. ágúst 1992, sbr. viðauka I, að teknu tilliti til keypts og selds fullvirðisréttar. Síðan breytist greiðslumark í hlutfalli við breytingar á heildargreiðslumarki."

Tilkynning Framleiðsluráðs landbúnaðarins til yðar, dags. 30. september 1991, felur aðeins í sér upplýsingar um stöðu fullvirðisréttar jarðarinnar H við lok fyrri niðurfærslu. Af ákvæðum búvörusamningsins og reglugerðar nr. 313/1991 var ljóst, að upplýsingar í þessari tilkynningu voru ekki endanlegar upplýsingar um þann fullvirðisrétt, sem greiðslumark jarðar yrði miðað við, enda var skýrt tekið fram í 2. mgr. 3. gr. búvörusamningsins, að greiðslumark hvers lögbýlis fyrir verðlagsárið 1992-1993 skyldi vera jafnt fullvirðisrétti þess, eins og hann yrði að lokinni aðlögun að innanlandsmarkaði "31. ágúst 1992". Þessi sérregla hlaut að ganga framar því almenna ákvæði, sem sett var í upphafi 1. mgr. 2. gr. búvörusamningsins. Var því raunar fylgt eftir í b-lið 7. gr. laga nr. 5/1992. Þar var sett sú almenna regla, að heildargreiðslumark skyldi ákveðið fyrir 15. september ár hvert vegna framleiðslu næsta verðlagsárs, en jafnframt ákveðið að heildargreiðslumark fyrir verðlagsárið 1992-1993 skyldi vera 8 600 tonn.

Þá var einnig tekið fram í 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 313/1991, að Framleiðsluráð landbúnaðarins skyldi við endurskoðun á fullvirðisréttarskrá taka "mið af þeirri sölu og niðurfærslu fullvirðisréttar sem á sér stað á aðlögunartímanum, þann 1. október 1991 og 31. ágúst 1992".

Í september 1991, þegar Framleiðsluráð landbúnaðarins sendi yður umrædda tilkynningu, hafði Alþingi ekki lokið umfjöllun um nauðsynlegar lagabreytingar vegna búvörusamningsins í samræmi við þann fyrirvara, sem gerður hafði verið við undirritun samningsins af hálfu ríkisstjórnar Íslands. Með lögum nr. 5/1992 var sá lagagrundvöllur ákveðinn og þar, eins og áður sagði, ákveðið beint í lögum, hvert skyldi vera heildargreiðslumark kindakjöts verðlagsárið 1992-1993.

Í samræmi við það, sem rakið hefur verið hér að framan, og með hliðsjón af þeim skýringum, sem fram koma í bréfi landbúnaðarráðuneytisins frá 21. maí 1993 í tilefni af kvörtun yðar, er það niðurstaða mín, að kvörtun yðar gefi ekki tilefni til frekari athugunar af minni hálfu eða athugasemda við tilkynningar eða ákvarðanir um greiðslumark jarðarinnar H. Afskiptum mínum af þessu máli er því lokið í samræmi við a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis."