Almannatryggingar. Tannréttingakostnaður. Kvaðning sérfróðra ráðunauta. Rannsóknarregla.

(Mál nr. 819/1993)

A kvartaði yfir úrskurði tryggingaráðs, þar sem því var synjað að Tryggingastofnun ríkisins tæki þátt í tannréttingakostnaði hennar. A hafði verið til meðferðar vegna einkenna frá kjálkaliðum hjá tannlæknadeild Háskóla Íslands og síðan leitað til sérfræðings í tannréttingum til frekari meðferðar. Synjun tryggingaráðs var byggð á því, að tannskekkja A hefði ekki fallið undir flokk I í reglum nr. 63/1991 og hefði því skilyrðum fyrir endurgreiðslu ekki verið fullnægt. Þá var til þess vísað í skýringum tryggingaráðs, að A hefði ekki leitað eftir endurgreiðslu vegna bitlækninga, en eingöngu vegna tannréttinga. Umboðsmaður rakti í áliti sínu breytingar á réttarreglum um endurgreiðslu kostnaðar vegna tannréttinga. Með lögum nr. 1/1992, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var þátttöku almannatrygginga í kostnaði af almennum tannréttingum hætt. Heimild til endurgreiðslu náði eftir það aðeins til aðgerða vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma, samkvæmt 39. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, sbr. síðar 33. gr. laga nr. 117/1993. Þá voru í reglum nr. 63/1991, um endurgreiðslur sjúkratrygginga af tannréttingakostnaði, sérstök ákvæði um rétt þeirra sem náð höfðu 17 ára aldri og áttu þær reglur við um A. Réttur til endurgreiðslu var þá bundinn við að tannskekkja félli undir tiltekna flokka í reglunum, 6. gr. flokk I og 7. gr. flokk II. Samkvæmt vottorði T, sérfræðings í tannréttingum, féll bitskekkja A undir flokk I í reglum þessum. Þá lágu fyrir tryggingaráði vottorð T og K, sérfræðings í bitlækningum, þess efnis að tannrétting hefði verið nauðsynleg í kjölfar meðferðar við bitskekkju A. Umboðsmaður tók fram, að það væri hlutverk tryggingaráðs að skera sjálfstætt úr ágreiningi um rétt til bóta og hvíldi sú skylda á tryggingaráði að sjá til þess að mál væri nægilega upplýst áður en úrskurður væri upp kveðinn. Gæti þar m.a. reynt á læknisfræðilegt mat á skilyrðum bóta. Það var álit umboðsmanns, að í máli þessu hefði verið réttara að tryggingaráð nýtti heimild sína í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, til að kalla til sérfróða menn. Sú skýring tryggingaráðs, að tannlæknar hefðu ekki fengist til samstarfs við stjórnvöld, átti ekki lengur við og beindi umboðsmaður þeim tilmælum til tryggingaráðs að taka mál A til meðferðar á ný, óskaði hún þess, og haga meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið, er fram koma í álitinu.

I. Hinn 7. júní 1993 leitaði til mín A og kvartaði yfir úrskurði tryggingaráðs frá 19. febrúar 1993, þar sem því var synjað að Tryggingastofnun ríkisins tæki þátt í tannréttingakostnaði hennar. II. Í úrskurði tryggingaráðs kemur fram, að A hafi átt við langvarandi óþægindi að stríða frá báðum kjálkaliðum og hafi verið til meðferðar hjá sérfræðingi í bitlækningum. Í júlímánuði 1991 hafi A farið í virka meðferð í tannréttingum, en það hafi að mati sérfræðinga verið talið eina rökrétta framhaldið. Í úrskurði tryggingaráðs segir: "Umsókn um endurgreiðslu vegna tannréttinga er dags. 13. mars 1992. Þann 8. september 1992 var umsókn synjað. Greinargerð tryggingayfirtannlæknis er dagsett 7. janúar s.l. Í niðurlagi greinargerðarinnar segir: "Tannskekkja [A] náði við mat 08.09.92 ekki flokk I samkvæmt reglum nr. 63/1991 og var því umsókn hennar um endurgreiðslu synjað." Greinargerðin hefur verið kynnt [A] og eru athugasemdir hennar dags. 21. janúar s.l. [A] leggur áherslu á að ekki sé verið að rétta tennur heldur færa til tennur til að laga bit. Í 3. gr. reglna nr. 63/1991 um endurgreiðslur sjúkratrygginga af tannréttingakostnaði samkvæmt lögum um almannatryggingar segir: "Tryggingastofnun ríkisins annast endurgreiðslur samkvæmt reglum þessum til barna og unglinga að 17 ára aldri. Umsóknir sem berast frá 17 ára og eldri, skulu því aðeins metnar að tannskekkja falli undir 6. gr., flokk I og 7. gr. flokk II og ekki hafi af læknisfræðilegum ástæðum þótt tímabært að hefja tannréttingar fyrr." Í greiningu á umsókn um endurgreiðslu er merkt við 103 og 309 tannþröng á framtönnum umtalsverð. Liður 309 fellur utan þeirra flokka, sem nefndir eru í tilvitnaðri grein. Með vísan til þess svo og með vísan til greinargerðar tryggingayfirtannlæknis þykir rétt að staðfesta fyrri niðurstöðu. Því úrskurðast ÚRSKURÐARORÐ: Synjað er þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í tannréttingarkostnaði [A], kt. [...]." Í tilvitnaðri greinargerð Þ tryggingayfirtannlæknis frá 7. janúar 1993 kemur eftirfarandi fram: "[A] hefur um árabil haft einkenni frá kjálkaliðum. Meðferð í Tannlæknadeild H.Í. gekk illa, reynist ekki hafa verið samfelld og vísaði hlutaðeigandi tannlæknir deildarinnar [A] til tannréttingalæknis til meðferðar. Ekki finnast gögn í stofnuninni um fyrri umsókn vegna bitvandræða hennar, en sumir þessara sjúklinga hafa notið endurgreiðslu frá Tr vegna meðferðar hjá bitlækni, þar sem tilkoma þessara einkenna er einatt snögg og lasleg. Þetta verður hugsanlega rakið til þess að [A] fékk meðferð við tannlæknadeild H.Í. áður en til kasta tannréttingalæknis kom. UMSÖGN. All stór hópur fullorðinna þarf á bitlækningum að halda vegna einkenna frá kjálkalið. Flestir þessara sjúklinga fá bitskinnu [...], sem gegnir því tvíþætta hlutverki að greina sjúkdóminn og/eða lækna hann. Sumir þessara sjúklinga þurfa á framhaldsmeðferð, oftast tannréttingu, að halda og er [A] í hópi þeirra. Af tilskrifum [Á] tannlæknis er ljóst að rétting á tönnum er langt komin eftir 16 mán. meðferð, sem telst vera rétting í styttra lagi, við vægri skekkju." A telur að afgreiðsla máls hennar hjá tryggingaráði hafi ekki verið réttmæt, þar sem tannréttingameðferð sú, sem hún fékk, hafi verið til lækninga, en ekki til fegrunar. III. Ég ritaði tryggingaráði bréf 14. júní 1993 og óskaði með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, eftir að mér yrðu látin í té gögn málsins. Þá óskaði ég einnig upplýsinga um starfsreglur yfirtannlæknis, ef slíkar reglur hefðu verið settar. Gögn málsins bárust mér með bréfi tryggingaráðs 30. júní 1993. Fylgdu þar með vottorð þeirra tveggja lækna, sem A hafði hlotið meðferð sína hjá, K bitsérfræðings og T tannlæknis. Í vottorði T, dags. 19. nóvember 1992, kemur eftirfarandi fram: "[A] hóf meðferð í tannréttingum í maí, 1991. Meðferð hófst með úrdrætti á miðframtönn neðri góms og að sett voru föst tannréttingatæki á allar tennur neðrigóms. Síðar voru einnig sett tæki á tennur efri góms. Aðdragandinn var sá að [A] hafði átt við langvarandi óþægindi að stríða frá báðum kjálkaliðum, og var hún áður til meðferðar hjá [K], tannlækni og sérfræðingi í bitlækningum. Hjá honum fékk hún flata bitskinnu sem bætti ástand mjög en leiddi jafnframt til þess að neðri kjálki gekk fram samfara anterior snúningi sem opnaði bit á jaxlasvæði. Var það samdóma álit okkar að eina rökrétta framhaldið væri tannrétting, sem tryggði eðlilegt samanbit í þessari nýju stöðu neðri kjálkans. Meginmarkmið tannréttingameðferðarinnar voru því: Færa neðrigóms framtennur aftar til að koma neðri kjálka framar, veita fram efrigóms framtönnum í sama tilgangi; tryggja þétt jaxlabit í þessari nýju stöðu. Meðferð er nú langt komin, og er sönn ánægja að greina frá því að flest eða öll þau einkenni sem áður hrjáðu [A] (brak, smellir, óþægindi og verkir í kjálkaliðum og nærliggjandi vöðvafestum) eru horfin með öllu." Í vottorði K, dags. 30. október 1992, segir að A hafi verið til meðferðar hjá honum og leitað í framhaldi af því til T til að "fá réttar sínar tennur og skapa þannig heppilegri starfsaðstæður fyrir kjálkaliði og -vöðva". Í vottorði K kemur fram það mat hans, að slík framhaldsmeðferð hafi verið mjög æskileg fyrir A. Ég ritaði tryggingaráði bréf 1. október 1993 og óskaði eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987, að það skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Sérstaklega óskaði ég eftir, að ráðið tæki afstöðu til eftirfarandi atriða: "1. Hvort við mat yfirtannlæknis og síðar tryggingaráðs hafi eingöngu verið litið til tannskekkju [A] eins og hún var 8. september 1992 eða hvort jafnframt hafi verið litið til þeirra líkamlegu annmarka, sem höfðu áður orðið tilefni læknismeðferðar á biti. Hvort í því sambandi hafi verið tekið sérstaklega til athugunar, hvort við ætti ákvæði 6. tölul. 6. gr. (flokkur I), sbr. 3. tölul. sömu greinar í reglugerð nr. 63/1991, sbr. ennfremur c-lið 39. gr. laga nr. 67/1971. "2. Af úrskurði tryggingaráðs og greinargerð tryggingayfirtannlæknis kemur ekki glöggt fram, hvort tekin hafi verið afstaða til þess, hvort umsókn [A] hafi átt undir 7., sbr. 3. gr. reglna nr. 63/1991. Óskað er skýringa á því. "3. Hvort afstaða hafi verið tekin til þess, hvort tryggingaráð ætti við úrlausn málsins, að kveðja sér til ráðuneytis sérfróða menn samkvæmt heimild í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 67/1971." Svar tryggingaráðs barst mér 12. nóvember 1993. Þar segir: "Sem svar við fyrirspurnum yðar fylgja minnispunktar tryggingayfirtannlæknis dags. 18. október s.l. Við þá er að bæta, að tryggingaráð fór við afgreiðslu sína á málinu rækilega yfir 3., 6. og 7. gr. reglna nr. 63/1971 á grundvelli fyrirliggjandi gagna, en hafa ber í huga að tryggingaráðsmenn búa ekki yfir sérþekkingu á þessu sviði. Árið 1990 leitaði tryggingaráð til tannlæknadeildar um aðstoð við úrlausn tannmála. Svo sem meðfylgjandi ljósrit sýnir varð deildin ekki við þeirri málaleitan. Tryggingaráð hefur fram að þessu ekki getað kvatt til sérfræðinga í tannlæknisfræðilegum málum svo sem í öðrum málum, þar sem niðurstaða veltur t.d. á læknisfræðilegum álitaefnum." Í tilvitnuðum minnispunktum Þ tryggingayfirtannlæknis, dags. 18. október 1993, kemur eftirfarandi fram: "Tryggingastofnun ríkisins hefur endurgreitt kostnað vegna meðferðar við bitvandamálum. (Þar er ekki innifalin tannrétting eða gulluppbygging á tönnum). Hefðbundin meðferð við bitvandamálum er fólgin í notkun bitskinnu, slípingu tanna og æfingum. Hefði [A] sótt um endurgreiðslu til tryggingastofnunar málum sínum (svo), hefði hún fengið samþykkt endurgreiðslu við slíkri meðferð. Frekari meðferð gerist oftast með tannréttingu og/eða gulluppbyggingu tanna, en um það ber að sækja sérstaklega. [A] sótti um endurgreiðslu kostnaðar vegna tannréttinga en var synjað, þar sem ekki var heimild skv. reglum nr. 63/1991, að samþykkja umsókn hennar. Allir þrír flokkar fyrrnefndra reglna taka til tannskekkju, sem þörf er talin á að rétta af læknisfræðilegum ástæðum; fegrunaraðgerðir eru ekki endurgreiddar. Afstaða til tl. 1-3 í bréfi umboðsmanns. 1. Við mat á tannskekkju er litið á aðdraganda skekkjunnar og batahorfur. Aðdragandi umsóknar [A] um endurgreiðslu vegna tannréttinga var bitvandamál, sem meðferð fékk í tannlæknadeild H.Í., undir umsjón [K], sérfræðings í bitlækningum. Í læknabréfi frá deildinni dags. 29.04.1991 og vottorðum frá [K] dags. 30.10.1992 og 24.02.1993 kemur fram að sjúkdómseinkenni [A] hafa verið klassísk eðlis, þ.e. hin sömu og sjúkdómaeinkenni fjölmargra, sem eiga við hliðstæð vandamál að stríða; og meðferð hefðbundin. Vel flestir þessara sjúklinga, sem sótt hafa um endurgreiðslu vegna bitlækninga hafa fengið 45-75% kostnaðar endurgreiddan; [A] sótti ekki um endurgreiðslu vegna bitlækninga enda til meðferðar í tannlæknadeild H.Í. Mat tryggingayfirtannlæknis 8. sept. 1992 byggði á framangreindum sjúkragögnum og læknisvottorði (umsókn) [T], sérfræðings í tannréttingum. [T] vísar í umsókn sinni til greiningarnúmera 103 og 309. Greining samkvæmt 103 (flokkur I) er skírskotun til alvarlegra kerfissjúkdóma (systemic disease), sem leiða til niðurbrots á tyggingafærum, og á því ekki við í tilviki [A]. Þá er skv. 3. gr. reglna nr. 63/1991 óheimilt að endurgreiða einstaklingi eldri en 17 ára eftir tl. 309 (flokkur III). 2. Við mat á tannskekkju [A] var tannskekkju hennar ekki fundin stoð í greiningartöflu 7. gr. reglnanna (flokkur II). Sjúkragögn, sem og læknisvottorð (umsókn) [T], tannréttingalæknis, í greiningu [T] kemur ekki fram tilvísun í 7. gr. reglnanna (flokkur II), gáfu ekki tilefni til að greina tannskekkju [A] skv. 7. gr. reglnanna, að mati tryggingayfirtannlæknis. 3. Það eru vinnureglur tryggingayfirtannlæknis við mat á umsóknum að kalla eftir læknisvottorðum og kveðja sér til ráðuneytis sérfróða menn, þegar þörf krefur að hans mati. Í máli [A] liggja fyrir við upptöku málsins í tryggingaráði vottorð frá tveimur sérfræðingum, sem hlut áttu að máli frá upphafi og bein skírskotun. Það hefur því ekki komið til tals í tryggingaráði að fá umsókn [A] metna af til kvöddum sérfræðingum." Með bréfi, dags. 12. nóvember 1993, gaf ég A kost á að gera athugasemdir við bréf tryggingaráðs frá 10. nóvember 1993. Hinn 14. júlí 1994 bárust mér, f.h. A, athugasemdir T, tannlæknis, við framangreint bréf tryggingaráðs og minnispunkta tryggingayfirtannlæknis. Þar segir m.a.: "Eins og fram kemur af bréfi undirritaðs til tryggingaráðs, dags. 19. nóvember 1992, og umsögn [K], sérfræðings í bitlækningum, dags. 24. febrúar 1993, er aðdragandinn að tannréttingu [A] bæði starfrænt og pathologiskt vandamál í tyggingafærum. Nánar tiltekið greindist [A] í desember 1988 með liðhrörnun eða slitgigt í hægri kjálkalið (arthrosis art. temp. mand. dxt.). Þessu fylgdu höfuðkvalir með uppruna í vöðvum og vöðvafestum (cephalagia myogenis) og verulega skert starfsemi tyggingarfæra. Í umsögn [K] kemur jafnframt fram að vegna stöðu framtanna þvingast neðri kjálkinn aftur í samanbiti, en þetta er talinn sterkur áhættuþáttur í myndun starfrænna vandamála í kjálkaliðum. Eftir meðferð með bitspelku sem stóð yfir í tæpt ár, reynast flest einkenni hafa hjaðnað. Höfðu höfuðverkir minnkað, óþægindi frá kjálkanum ekki lengur til staðar, en ca 1/2 mm posterior opið bit greindist án bitspelkunnar. Það sem þarna gerist er að með hjálp bitspelkunnar er kjálkinn færður í nýja stöðu sem fellur betur að starf- og vefjafræðilegum frávikum í kjálkaliðum, en nú passa tennur efri og neðri góms ekki lengur saman. Ákveðið var í framhaldi af þessu að rétta tennur [A] til að gera henni kleift að bíta eðlilega saman í þessari nýju stöðu neðri kjálkans. Tannréttingunni lauk í maí 1993, og hefur [A] verið einkennalaus síðan. Það má því ljóst vera að umsókn [A] byggðist alfarið á læknisfræðilegri meðferðarþörf. Með tilvísan til sjúkdómsgreiningar hennar skv. framansögðu telst hún hafa verið rétt flokkuð í umsókninni. Leiki hins vegar vafi á því hvort sjúkdómseinkenni [A] falli undir þann greiningarlið sem valinn var af flokkunarblaðinu hlýtur það að vera skylda tryggingaráðs að fá úr því skorið af sérfróðum aðilum, innlendum eða erlendum." Ég ritaði tryggingaráði bréf 11. ágúst 1994 og óskaði með vísan til 9. gr. gr. laga nr. 13/1987, að tryggingaráð skýrði nánar, hvers vegna því væri ekki unnt að kveðja til sérfræðinga í "tannlæknisfræðilegum málum svo sem í öðrum málum". Svar tryggingaráðs barst mér 16. ágúst 1994. Kemur þar fram, að tannlæknar hafi ekki fengist til samstarfs, en það hafi nú breyst, og fylgdi ljósrit af bréfi Tannlæknafélags Íslands, dags. 3. ágúst 1994, því til staðfestingar. IV. Í áliti mínu rakti ég breytingar á lagareglum um endurgreiðslur almannatrygginga vegna tannréttinga. Í álitinu segir: "Hinn 1. janúar 1994 tóku gildi ný lög um almannatryggingar, lög nr. 117/1993. A sótti um endurgreiðslu vegna tannréttinga 13. mars 1992 og eiga þágildandi reglur um almannatryggingar við í máli hennar. Koma þá til athugunar annars vegar lög nr. 67/1971, um almannatryggingar, ásamt síðari breytingum, og hins vegar reglur nr. 63/1991, um endurgreiðslur sjúkratrygginga af tannréttingakostnaði, samkvæmt lögum um almannatryggingar. Með lögum nr. 1 24. janúar 1992, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, var breytt þátttöku almannatrygginga í kostnaði af tannlækningum. Var þannig hætt þátttöku í tannréttingum að öðru leyti en því sem fram kemur í c-lið 1. mgr. 39. gr. laga nr. 67/1971, sbr. 18. gr. laga nr. 1/1992. Svo breytt hljóðar 39. gr. laga nr. 67/1971: "Hlutverk sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins er að annast sjúkratryggingar samkvæmt lögum þessum. Enn fremur er það hlutverk sjúkratryggingadeildar: [...] c. Að veita styrk til aðgerða hjá tannlækni, umfram það sem 44. gr. nær til, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Ráðherra setur reglur um framkvæmd þessa ákvæðis að fengnum tillögum tryggingaráðs." Samhljóða lagaheimild er nú í lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, sbr. c-lið 1. mgr. 33. gr. þeirra laga. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 1/1992 kemur fram, að nauðsynlegt hafi þótt í framhaldi af því, að greiðsluþátttöku í almennum tannréttingum yrði hætt, að breyta orðalagi c-liðar 39. gr. "til að taka af allan vafa um það að með stoð í honum megi styrkja tannréttingar sem leiðir af alvarlegum meðfæddum göllum, slysum eða sjúkdómum." (Alþt. 1991-1992, A-deild, bls. 1566.) Reglur nr. 63/1991, um endurgreiðslur sjúkratrygginga af tannréttingakostnaði, samkvæmt lögum um almannatryggingar, tóku til tannréttinga, sem framkvæmdar voru samkvæmt c-lið 1. mgr. 39. gr. og 2. tölul. 44. gr. laga nr. 67/1971, ásamt síðari breytingum. Með lögum nr. 1/1992 var ákveðið að hætta endurgreiðslum vegna tannréttinga á grundvelli 44. gr. laga nr. 67/1971, en í IV. bráðabirgðaákvæði laga nr. 1/1992 var gert ráð fyrir ákveðnum aðlögunartíma, þannig að þeir, sem njóta áttu endurgreiðslna af tannréttingarkostnaði á árinu 1991 samkvæmt reglum nr. 63/1991, skyldu njóta þess réttar áfram, enda hefðu þeir sótt um það fyrir 15. mars 1992. Greiðslum samkvæmt bráðabirgðaákvæði þessu lauk 31. desember 1993. Í 3. gr. reglna nr. 63/1991 segir: "Tryggingastofnun ríkisins annast endurgreiðslur samkvæmt reglum þessum til barna og unglinga að 17 ára aldri. Umsóknir, sem berast frá 17 ára og eldri, skulu því aðeins metnar að tannskekkja falli undir 6. gr., flokk I og 7. gr. flokk II og ekki hafi af læknisfræðilegum ástæðum þótt tímabært að hefja tannréttingu fyrr." Fram hefur komið, að í umsókn A um endurgreiðslu vegna tannréttinga vísar tannlæknir hennar, T, annars vegar til greiningarnúmers nr. 103, sem fellur undir 3. tölul. 6. gr., flokk I, í reglum nr. 63/1991; "Alvarlegir og/eða illkynjaðir sjúkdómar, sem skerða til skaða tyggingarhæfni og/eða tannréttingarmeðferð er talin bæta batahorfur". Hins vegar er vísað til greiningarnúmers 309, sem fellur undir 7. tölul 7. gr., flokks III, "tannþröng á framtönnum umtalsverð (riðlun/skörun); rými mælt í mm og bitstaða einstakrar tannar tilgreind", en samkvæmt 3. gr. reglna nr. 63/1991 er ekki um að ræða rétt til endurgreiðslu af hálfu einstaklings eldri en 17 ára á þeim grundvelli." V. Þá tók ég eftirfarandi fram, um meðferð tryggingaráðs á umsókn A og um málsmeðferðarreglur þær, sem tryggingaráði ber að gæta. Eins og mál þetta var vaxið benti ég á að rétt hefði verið að tryggingaráð neytti þeirrar heimildar að kalla til sérfróða menn: "Í greinargerð tryggingayfirtannlæknis frá 7. janúar 1993 vegna kvörtunar A til tryggingaráðs segir, að umsókn hennar um endurgreiðslu hafi verið synjað, þar sem tannskekkja hennar hafi við mat hinn 8. september 1992 ekki náð flokki I samkvæmt reglum nr. 63/1991. Þá kemur fram í skýringum tryggingayfirtannlæknis, minnispunktum, dags. 18. október 1993, að A hafi ekki sótt um endurgreiðslu til tryggingastofnunar vegna meðferðar við bitvandamálum, en ef svo hefði verið, hefði hún fengið samþykkta endurgreiðslu. Hún hafi á hinn bóginn sótt um endurgreiðslu kostnaðar vegna tannréttinga, en því verið synjað, þar sem ekki hafi verið heimild í reglum nr. 63/1991 til að samþykkja umsókn hennar, enda taki allir þrír flokkar fyrrnefndra reglna "til tannskekkju, sem þörf er talin á að rétta af læknisfræðilegum ástæðum; fegrunaraðgerðir eru ekki endurgreiddar". VI. Í 7. gr. laga nr. 67/1971, sbr. 2. gr. laga nr. 75/1989, er svohljóðandi ákvæði: "Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta leggur tryggingaráð úrskurð á málið. Komi ágreiningur fyrir tryggingaráð til úrskurðar og úrlausn hans er að einhverju leyti eða öllu háð læknisfræðilegu, lögfræðilegu eða félagsfræðilegu mati er tryggingaráði hverju sinni heimilt að kveðja sér til ráðuneytis einn til þrjá menn sem hafa sérþekkingu á hlutaðeigandi sviði." Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum er það hlutverk tryggingaráðs að skera sjálfstætt úr ágreiningi um rétt til almannatryggingabóta, sem starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins hafa tekið ákvörðun um í störfum sínum, án tillits til þess hvort þar hefur einungis reynt á skýringu á fyrirmælum almannatryggingalaga eða önnur atriði, svo sem læknisfræðilegt mat á skilyrðum bóta- og lífeyrisréttar. Í skýringum við 2. gr. frumvarps til laga nr. 75/1989 segir: "Þannig gæti tryggingaráð t.d. leitað til ráðuneytisins, landlæknis eða Læknadeildar Háskóla Íslands um aðstoð við val á ráðunautum. Þessum ráðunautum er ætlað það hlutverk að veita tryggingaráði ráðgjöf og eftir atvikum að sitja fundi ráðsins, þar sem fjallað er um málefnið. Þeim er hins vegar ekki ætlað að greiða atkvæði um niðurstöður um ágreining og yrði álit þeirra ekki bindandi fyrir tryggingaráð...." (Alþt. 1988-1989, A-deild, bls. 2591.) Ákvæði 7. gr. laga nr. 67/1971 veitir þeim, sem í hlut á, rétt til þess að bera ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins undir tryggingaráð til endurskoðunar. Við slíka endurskoðun er tryggingaráði skylt, að eigin frumkvæði, að sjá til þess, að atvik málsins séu nægjanlega upplýst, áður en það fellir úrskurð sinn í málinu. Eins og fram kemur hér að framan, liggur fyrir ágreiningur í máli þessu um, hvort A hafi átt rétt til bóta á grundvelli c-liðar 39. gr. laga nr. 67/1971 og reglna nr. 63/1991. Samkvæmt vottorðum tveggja sérfræðinga, sem lágu fyrir við afgreiðslu tryggingaráðs, var tannrétting A framhaldsmeðferð eftir bitlækningar, og segir í vottorði T, tannréttingasérfræðings, frá 19. nóvember 1992, að það hafi verið samdóma álit þeirra, að "eina rökrétta framhaldið væri tannrétting, sem tryggði eðlilegt samanbit í þessari nýju stöðu neðri kjálkans". Í umsókn A um endurgreiðslu vegna tannréttinga hafði T merkt við greiningarlið nr. 103, sem fellur undir flokk I í reglum nr. 63/1991, en það mat virðist ekki samrýmast áliti tryggingayfirtannlæknis. Í þessu sambandi ber að hafa í huga, að samkvæmt 5. gr. laga nr. 67/1971 er ekki sett það skilyrði að þeir, sem sitja í tryggingaráði, hafi sérþekkingu á læknisfræðilegum atriðum, en jafnframt er ljóst að tryggingaráði ber að fjalla sjálfstætt um ákvarðanir tryggingayfirtannlæknis og þá einnig þær, er kunna að lúta að tannlæknisfræðilegum atriðum. Tel ég því að réttara hefði verið í máli þessu, að tryggingaráð nýtti heimild sína í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 67/1971 til að kveðja til sérfróða menn. Í skýringum tryggingaráðs hefur komið fram, að ekki hafi verið unnt að kveðja til sérfræðinga í málum sem þessum, þar sem tannlæknar hafi ekki fengist til samstarfs. Sú hindrun er hins vegar ekki lengur í vegi, svo sem greinir í fyrrnefndu bréfi tryggingaráðs frá 16. ágúst 1994." VII. Niðurstaða álits míns, dags. 14. febrúar 1995, var svohljóðandi: "Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að réttara hefði verið, að tryggingaráð hefði við meðferð umræddrar kæru A nýtt sér heimild 2. mgr. 7. gr. laga nr. 67/1971 til þess að kveðja sér til ráðuneytis sérfróða menn. Eru það því tilmæli mín, ef beiðni kemur um það frá A, að tryggingaráð taki mál hennar til meðferðar á ný og hagi þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið, sem ég hef gert grein fyrir í áliti þessu." VIII. Hinn 23. febrúar 1996 óskaði ég eftir upplýsingum frá tryggingaráði um, hvort A hefði leitað til ráðsins á ný, og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af því. Í svari tryggingaráðs frá 21. mars 1996 kom fram, að A hefði leitað til ráðsins á ný. Tryggingaráð hefði í framhaldi af því óskað eftir tilnefningu utanaðkomandi sérfræðings "en ekki var talið að hann skilaði neinu því er breytti fyrri niðurstöðu og fyrri úrskurður því staðfestur".