Fjármála- og tryggingastarfsemi. Bankasýsla ríkisins.

(Mál nr. 6569/2011)

A óskaði eftir áliti umboðsmanns Alþingis á því hvort farið hefði verið að lögum nr. 88/2009 varðandi meðferð og fyrirsvar gagnvart fjármálafyrirtækjum sem ríkið á hlut að við stofnun, rekstur og niðurlagningu Spkef sparisjóðs og stofnun, rekstur og sölu Byrs banka.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um erindið með bréfi, dag. 31. ágúst 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður benti á að samkvæmt 4. gr. laganna gæti hver sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem hefur á hendi stjórnsýslu kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Að jafnaði yrði hins vegar ekki kvartað til umboðsmanns nema kvörtun varðaði tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds í máli þess sem kvörtun bæri fram og fæli í sér beitingu stjórnsýsluvalds. Það væri ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té, án þess að um tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds væri að ræða í þeim skilningi, lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum fyrirspurnum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið. Umboðsmaður taldi ekki annað verða ráðið af kvörtuninni en að hún beindist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds í máli A heldur virtist helst sem óskað væri eftir lögfræðilegri álitsgerð umboðsmanns um álitaefnið. Af þeirri ástæðu taldi umboðsmaður ekki skilyrði að lögum til að taka erindið til frekari meðferðar sem kvörtun.