Fjármála- og tryggingastarfsemi. Einkaréttarlegir aðilar.

(Mál nr. 6567/2011)

A kvartaði yfir því að lánasamningur við fjármálafyrirtækið B, sem hún yfirtók árið 2009 vegna bifreiðarkaupa, hefði ekki verið leiðréttur þrátt fyrir dóma Hæstaréttar um ólögmæti sambærilegra lánasamninga.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi, dags. 8. ágúst 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður benti á að B væri fjármálafyrirtæki og teldist einkaréttarlegur aðili. Í ljósi 2. gr. laga nr. 85/1997 væru því ekki uppfyllt skilyrði laga til að taka erindið til meðferðar. Hann benti A hins vegar á að henni kynni að vera fært að leita til umboðsmanns skuldara. Yrði hún ósátt við afgreiðslu umboðsmanns skuldara á erindinu væri henni að öðru jöfnu heimilt að leita til sín að nýju vegna þess.