Menntamál. Framhaldsskólar.

(Mál nr. 6541/2011)

A kvartaði yfir því fyrirkomulagi að 45% lausra plássa í framhaldsskólum væru tekin frá fyrir nemendur í forgangshópi, þ.e. nemendur sem koma úr grunnskólum sem eru á svæði sem skilgreint er sem upptökusvæði framhaldsskóla. Þá laut kvörtunin að því að Alþingi hefði með lagabreytingu fellt brott ákvæði um samræmd lokapróf.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. ágúst 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður hafði þegar til athugunar kvartanir tveggja einstaklinga vegna hliðstæðra atriða við þau sem fyrra kvörtunarefni A laut að. Hann taldi því ekki ástæðu til að hefja sérstaka athugun vegna erindis A en tók fram að hann myndi hafa upplýsingar sem komu fram í því til hliðsjónar. Hvað síðara kvörtunarefni A varðaði benti umboðsmaður á að starfssvið umboðsmanns Alþingis tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, og þar með hver hefði orðið niðurstaða Alþingis um lagasetningu eða hvernig til hafi tekist í þeim efnum. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að fjalla nánar um kvörtun A.