Persónuréttindi. Lögræðissvipting.

(Mál nr. 6537/2011)

A, vistaður á geðdeild, kvartaði yfir því að brotið hefði verið á réttindum sínum þegar hann var sviptur sjálfræði og að honum hefði verið haldið á sjúkrahúsi án dómsúrskurðar og ekki fengið að bera málið undir Hæstarétt.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á kvörtuninni með bréfi, dags. 31. ágúst 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður rakti að af skýringum Landspítala væri ljóst að þegar A var lagður inn á geðdeild hefði hann verið lögræðissviptur og því ættu ákvæði III. kafla laga nr. 71/1997 ekki við um hans tilvik hans, en þar væri fjallað um nauðungarvistun sjálfráða manna. Hvað varðaði sjálfræðissviptingu A, þá var ekki ljóst af erindinu hvort hann teldi að skilyrði hefðu ekki staðið til lögræðissviptingar í upphafi eða hvort hann teldi þau ekki vera lengur fyrir hendi. Umboðsmaður benti á að samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla. Því væru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að fjalla um meðferð dómstóla á máli er hefði lyktað með úrskurði um lögræðissviptingu A. Þá benti umboðsmaður á að í lögræðislögum væri gert ráð fyrir því að lögræðissviptir einstaklingar ættu rétt á því að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að bera áframhaldandi lögræðissviptingu sína undir héraðsdómara samkvæmt nánari fyrirmælum greinarinnar og þeirra ákvæða laganna sem þar er vísað til. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á kvörtuninni.