Samkeppnismál.

(Mál nr. 6590/2011)

A fór þess á leit að umboðsmaður Alþingis kannaði lögmæti ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins í máli er varðaði samkeppnishömlur í tengslum við forverðmerkingar á kjötvörum og lyktaði með sáttum við hlutaðeigandi fyrirtæki og fyrirmælum Samkeppniseftirlitsins um að þau myndu hlíta tilteknum skilyrðum, þ. á m. að hætt yrði að taka við vörum frá kjötbirgjum með smásöluverði og að hætt yrði að merkja vörur með smásöluverði. Af kvörtun A varð ráðið að hann teldi ákvörðunina fela í sér bann við verðupplýsingum um kjötvörur til almennings og að með henni væri almenningi gert erfitt að afla sér upplýsinga um verðlag almennra neysluvara.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um erindi A með bréfi, dags. 31. ágúst 2010, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður taldi að jafnvel þó að ákvörðun eins og sú sem um ræddi gæti varðað almannahagsmuni yrði ekki séð að kvörtunarefnið varðaði beinlínis hagsmuni A umfram aðra borgara með þeim hætti að uppfyllt væri skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um erindið sem kvörtun, sbr. 4. gr. laga nr. 85/1997. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 benti hann jafnframt á að aðilar sem uppfylltu skilyrði 4. gr. laga nr. 85/1997 og teldu á sér brotið með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins yrðu að freista þess að kæra þá ákvörðun til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sbr. 9. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, áður en þeir leituðu til umboðsmanns með kvörtun. Að lokum benti umboðsmaður A á að umrædd ákvörðun hefði eingöngu falið í sér að svokölluðum forverðmerkingum skyldi hætt. Teldi A að tiltekið fyrirtæki hefðu gerst brotlegt við ákvæði 17. gr. laga nr. 57/2005 og reglur nr. 725/2008, þar sem kveðið væri á um verðmerkingar, gæti hann freistað þess að leita til Neytendastofu með kvörtun eða ábendingu.