Skattar og gjöld. Afslættir og bætur.

(Mál nr. 6563/2011)

A kvartaði yfir því að lán til endurbóta á eigin húsnæði, tekin hjá öðrum lánastofnunum en Íbúðalánasjóði, myndi ekki stofn til vaxtabóta, sbr. 2. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Í kvörtuninni kom fram sú afstaða að slíkt hlyti að brjóta gegn jafnréttissjónarmiðum. Auk þess benti A á að hámarkslán frá Íbúðalánasjóði væri 20 milljónir króna og að hann hefði tekið bankalán til að fjármagna framkvæmdir þar sem hann hefði ekki átt kost á að taka lán hjá sjóðinum.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um erindið með bréfi, dags. 8. ágúst 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður benti á að starfssvið umboðsmanns Alþingis tæki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess og hann fjallaði því almennt ekki um það á grundvelli kvörtunar hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefði samþykkt. Hins vegar kynnti hann sér efni þeirra erinda sem honum bærust er lytu að lagasetningu Alþingis með það í huga hvort tilefni væri til að taka til athugunar, á grundvelli 5. og 11. gr. laga nr. 85/1997, hvort meinbugir væru á gildandi lögum. Umboðsmaður rakti því næst að settur umboðsmaður Alþingis hefði á árinu 2010 leitað eftir afstöðu fjármálaráðuneytisins til álitaefnisins í tilefni af sambærilegri kvörtun en ráðuneytið hefði ekki talið fyrirkomulagið brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár. Í ljósi sjónarmiða sem komu fram í því bréfi ráðuneytisins og þar sem umboðsmanni var ekki kunnugt um neina dóma Hæstaréttar Íslands eða annarra úrskurðaraðila þar sem lagt er til grundvallar að lagaákvæði af umræddu tagi séu í ósamræmi við jafnræðisreglur taldi hann ekki tilefni til að nýta heimild 5. gr. laga nr. 85/1997 vegna kvörtunar A.