Skattar og gjöld. Bifreiðagjöld.

(Mál nr. 6593/2011)

A kvartaði yfir því annars vegar að Umferðarstofa hefði hafnað því að skrá í ökutækjaskrá að gildi koltvísýringslosunar úr bifreið sem A hafði flutt inn frá Bandaríkjunum væri 281 g/km og hins vegar að ríkisskattstjóri hefði hafnað erindi hans um breytingu á fjárhæð bifreiðargjalds fyrir tímabilið janúar – júní 2011 sem var lagt á á þeim grundvelli að koltvísýringslosun bifreiðarinnar væri óþekkt.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um erindið með bréfi, dags. 31. ágúst 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umferðarstofa hafði leiðbeint A um að stjórnvaldsákvörðunum Umferðarstofu mætti skjóta til innanríkisráðuneytisins, sbr. 26. og 27. gr. stjórnsýslulaga, og ríkisskattstjóri hafði leiðbeint honum um kæruleið til yfirskattanefndar. Í ljósi þess að ekki kom fram að A hefði leitað til þeirra stjórnvalda taldi umboðsmaður sér ekki unnt að fjalla frekar um niðurstöður Umferðarstofu og ríkisskattstjóra, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Þar sem A hélt því fram að lög um álitaefnið stæðust ekki stjórnarskrá tók umboðsmaður fram að starfssvið hans næði ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, og því fjallaði hann almennt ekki um það á grundvelli kvörtunar hvernig til hefði tekist með löggjöf samþykktri af Alþingi. Þá teldi hann ekki ástæðu til að taka til erindið til athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997 og hafði þar m.a. í huga að A hefði ekki leitað til æðra settra stjórnvalda vegna málsins.