Skattar og gjöld. Gjald vegna rekstrar á embætti umboðsmanns skuldara.

(Mál nr. 6581/2011)

A kvartaði yfir undirbúningi og ákvarðanatöku um gjaldtöku vegna rekstrar embættis umboðsmanns skuldara fyrir árið 2010 og vegna fyrirhugaðrar gjaldtöku fyrir árið 2011. Í kvörtuninni kom fram að A teldi umboðsmann skuldara hafa brotið gegn 5. gr. laga nr. 100/2010 með gjaldálagningu fyrir árin 2010 og 2011 og gegn rannsóknarreglu og andmælareglu stjórnsýslulaga vegna ársins 2010 þar sem stofnunin hefði ekki sinnt þeirri lagaskyldu að leita umsagnar vegna rekstaráætlunar ársins 2010. Þá teldi A kröfu umboðsmanns skuldara um greiðslu gjalda vegna áranna 2010 og 2011 niður fallna vegna tómlætis þar sem stofnunin hefði ekki sinnt skyldu sinni um álagningu gjaldanna á lögbundnum tíma og ekki gert greiðslukröfur fyrir lögbundna gjalddaga.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um erindið með bréfi, dags. 31. ágúst 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Í ljósi þeirrar aðkomu sem lög nr. 100/2010 gera ráð fyrir að velferðarráðherra hafi að útreikningi og álagningu umrædds gjalds, sbr. 5. gr. laganna, taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að bera umkvörtunarefnið undir velferðarráðuneytið áður en hann tæki kvörtunina til frekari athugunar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.