Skattar og gjöld. Gjald vegna rekstrar á embætti umboðsmanns skuldara.

(Mál nr. 6582/2011)

Lánasjóður sveitarfélaga ohf. kvartaði yfir innheimtu skuldara skuldara á gjaldi vegna rekstrar embættisins, sbr. 5. gr. laga nr. 100/2010. Í kvörtuninni kom m.a. fram að lántakar hjá sjóðinum væru sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir í eigu sveitarfélaga, svo og fyrirtæki og stofnanir í eigu sveitarfélaga og ríkissjóðs. Einstaklingar eða aðrar tegundir af lögaðilum væru ekki lántakar hjá sjóðnum. Starfsemi umboðsmanns skuldara væri sjóðnum því óviðkomandi og enginn kostnaður stofnaðist hjá stofnuninni vegna starfsemi sjóðsins. Lánasjóðurinn teldi því gjaldtöku af sér fara gegn meginsjónarmiðum um töku þjónustugjalda og lögbundna stjórnsýslu og fela í sér skattheimtu án fullnægjandi lagaheimildar, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Í kvörtuninni kom einnig fram að sjóðurinn teldi hafa verið brotið gegn 5. gr. laga nr. 100/2010, og rannsóknarreglu og andmælareglu stjórnsýslulaga vegna ársins 2010 þar sem umboðsmaður skuldara hefði ekki leitað umsagnar vegna rekstaráætlunar ársins. Þá væri krafa um greiðslu gjalda vegna áranna 2010 og 2011 niður fallin vegna tómlætis þar sem stofnunin hefði ekki sinnt skyldu sinni um álagningu gjaldanna á lögbundnum tíma og ekki gert greiðslukröfur fyrir lögbundna gjalddaga.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um erindið með bréfi, dags. 31. ágúst 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Í ljósi þeirrar aðkomu sem lög nr. 100/2010 gera ráð fyrir að velferðarráðherra hafi að útreikningi og álagningu umrædds gjalds, sbr. 5. gr. laganna, taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að bera umkvörtunarefnið undir velferðarráðuneytið áður en hann tæki kvörtunina til frekari athugunar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.