Skattar og gjöld. Tekjuskattur.

(Mál nr. 6558/2011)

A kvartaði yfir fyrirkomulagi við útreikning á tekjuskatti, nánar tiltekið yfir því að við útreikning á tekjuskatti hjóna, þar sem aðeins annað hjónanna er fyrirvinna, gæti það hjónanna sem aflar atvinnutekna ekki nýtt þá fjárhæð sem hinu hjónanna hefði ellegar fallið til í fyrsta þrepi tekjuskatts, þ.e. 24,1%, heldur væri reiknaður 27% tekjuskattur af þeirri fjárhæð. Fyrir vikið greiddu hjón í þeirri stöðu hærri tekjuskatt en hjón sem bæði væru fyrirvinnur myndu gera af sömu fjárhæð. Í erindi A kom einnig fram að hann hefði óskað eftir og fengið endurgreiðslu á staðgreiddum opinberum gjöldum, en skattyfirvöld hefðu nú farið fram á að hann endurgreiddi þá fjárhæð sem hann hefði fengið samþykkta til lækkunar.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi, dags. 8. ágúst 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður benti á að starfssvið umboðsmanns Alþingis tæki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 og því fjallaði umboðsmaður almennt ekki um það á grundvelli kvörtunar hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingis hefði samþykkt. Þá taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna erindisins, að því leyti sem það beindist að efni laga nr. 90/2003, á grundvelli heimilda sinna til að taka til athugunar að eigin frumkvæði hvort meinbugir séu á lögum, sbr. 5. og 11. gr. laga nr. 85/1997. Hvað varðaði kröfu skattyfirvalda um endurgreiðslu fjárhæðar sem A kvaðst áður hafa fengið samþykkta til lækkunar, þá taldi umboðsmaður sér ekki unnt að taka málið til athugunar fyrr en A hefði borið málið undir yfirskattanefnd, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, en tók fram hann gæti leitað til sín að nýju teldi hann sig þá enn beittan rangindum.