Skipulagsmál.

(Mál nr. 6553/2011)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna skipulagsmála í sveitarfélaginu X. Í fyrsta lagi beindist kvörtunin að því að sveitarfélagið hefði tvisvar sinnum á rúmlega einu ári reynt að breyta deiluskipulagi vegna tiltekins landsvæðis í sveitarfélaginu. Í öðru lagi kvartaði A yfir athafnaleysi sveitarfélagsins gagnvart bílapartasölu sem hún taldi rekna í leyfisleysi. Af erindi og gögnum málsins varð jafnframt ráðið að kvörtun A beindist í þriðja lagi að athafnaleysi sveitarfélagsins vegna vegar sem hún kvað þarfnast lagfæringar til að fært yrði að tilteknum lóðum í sveitarfélaginu. Í fjórða lagi varð ráðið af erindinu að A teldi sveitarfélagið ekki hafa staðið við gerðan samninga um búgarðabyggð á tilteknum stað í sveitarfélaginu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. ágúst 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Þar sem skipulagsnefnd hafði ekki tekið afstöðu til kvörtunar A yfir breytingum á deiliskipulagi í sveitarfélaginu taldi umboðsmaður, í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, ekki uppfyllt skilyrði að lögum til að taka þann hluta kvörtunarinnar til meðferðar að svo stöddu en benti A á að sætti hún sig ekki við niðurstöðu sveitarfélagsins gæti hún freistað þess að leita til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sbr. 52. gr. laga nr. 123/2010, og teldi hún enn á rétt sinn hallað að fenginni þeirri niðurstöðu gæti hún leitað til sín á ný. Þar sem kvörtun A vegna bílapartasölunnar var enn til meðferðar hjá sveitarfélaginu benti umboðsmaður A enn fremur á að sætti hún sig ekki við afgreiðslu þess á kvörtuninni gæti hún freistað þess að leita til innanríkisráðuneytisins vegna málsins, sbr. 102. og 103. gr. laga nr. 45/1998, og að fenginni afstöðu ráðuneytisins gæti hún leitað til sín á ný. Ágreining vegna vegarins gæti hún borið undir Vegagerðina og síðan eftir atvikum undir úrskurð innanríkisráðuneytisins, yrði hún ósátt við niðurstöðu Vegagerðarinnar, en sú niðurstaða yrði að liggja fyrir til að hann gæti fjallað um þennan hluta kvörtunarinnar. Að lokum benti umboðsmaður A á að freista þess að bera þann hluta erindisins er laut að samningi um umrædda búgarðabyggð undir innanríkisráðuneytið, sbr. 102. og 103. gr. laga nr. 45/1998, en teldi hún á sig hallað að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins gæti hún leitað til sín að nýju.