Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6519/2011)

Hinn 6. júlí 2011 kvartaði A yfir því að erindi, dags. 18. mars 2009, sem hann sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, nú innanríkisráðuneytinu, og sneri að embættisfærslum tiltekins sýslumanns sem ákæranda í tilgreindum sakamálum, hefði ekki verið svarað. Fram kom í erindi A að ríkissaksóknari hefði skilað greinargerð vegna málsins ásamt fylgiskjölum fyrir hálfu ári síðan.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. ágúst 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að málið væri til meðferðar en hefði dregist vegna anna, sumarleyfa og fjölda málsskjala. Áætlað væri að svara erindinu í mánuðinum og A hefði verið tilkynnt um það bréflega. Umboðsmaður lauk því málinu en benti A á að drægist málið enn gæti hann leitað til sín á ný.