Svör við erindum. Rökstuðningur.

(Mál nr. 6374/2011)

Hinn 28. mars 2011 kvartaði A yfir því að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði ekki svarað erindi, dags. 5. janúar 2011, þar sem hann fór fram á rökstuðning ráðuneytisins fyrir ráðningu í embætti sem hann sótti um.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á kvörtuninni með bréfi, dags. 16. ágúst 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Í skýringum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til umboðsmanns kom fram erindinu hefði verið svarað með bréfi, dags. 29. júlí 2011. Umboðsmaður lauk því málinu en ritaði ráðuneytinu bréf og gerði athugasemdir við að A hefði ekki fengið umbeðinn rökstuðning fyrr en hálfu ári eftir að hann lagði beiðni sína fram og benti á að ráðuneytinu hefði borið að svara erindi hans innan 14 daga, sbr. 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga. Þá fékk umboðsmaður ekki séð að gætt hefði verið að því að skýra A frá töfum málsins þegar þær voru fyrirsjáanlegar og upplýsa hann um hvenær svara væri að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Hann beindi tilmælum til ráðuneytisins um að gæta betur að þessu í störfum sínum. Umboðsmaður gerði jafnframt athugasemdir við að fjórir mánuðir hefðu liðið frá því að hann spurðist fyrst fyrir vegna málsins þar til svar ráðuneytisins barst en ekki komu fram haldbærar skýringar á þeim drætti. Umboðsmaður taldi ljóst að sá dráttur hefði ekki samrýmst sjónarmiðum sem lög um umboðsmann Alþingis byggjast á og taldi ástæðu til þess, sérstaklega í ljósi annarra mála sem hann hafði til úrlausnar og vörðuðu ákvarðanir ráðuneytisins, að mælast til þess að gerðar yrðu ráðstafanir til að tryggja að dráttur af þessu tagi endurtæki sig ekki.