Svör við erindum. Rökstuðningur.

(Mál nr. 6516/2011)

Hinn 5. júlí 2011 kvartaði A annars vegar yfir því að hafa ekki fengið svar frá Háskóla Íslands við tölvubréfi sem hún sendi 27. maí 2011 með fyrirspurn um hvort ekki hefði verið farið eftir menntun við ráðningu í sumarstarf sem hún sótti um en fékk ekki. Hins vegar kvartaði hún yfir því að hafa ekki ekki fengið svar frá Þjóðminjasafni Íslands við tölvubréfi sem hún sendi 3. júní 2011 með fyrirspurn um hvers vegna hún hefði ekki fengið sumarstarf sem hún sótt um hjá safninu. Hinn 6. s.m. var A tilkynnt um að sú fyrirspurn hefði verið áframsend tilteknum starfsmanni.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. ágúst 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Í skýringum HÍ til umboðsmanns vegna málsins kom fram að fyrir misgáning hefði láðst að svara erindi A en það hefði verið gert 12. ágúst 2011 ásamt því að rökstyðja ráðningu í starfið. Þá kom fram að láðst hefði að leiðbeina A um að óska rökstuðnings. Í skýringum Þjóðminjasafnsins kom fram að vegna veikinda og orlofs hefði ekki gefist tími til að svara fyrirspurn A skriflega en það hefði verið gert 12. ágúst 2011. Þá kom fram að ljóst væri að safnið hefði ekki leiðbeiningarskyldu samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga þegar tilkynnt var um ráðninguna og í kjölfarið hefðu verklagsreglur safnsins verið yfirfarnar. Í ljósi þessa leit umboðsmaður svo á að A hefði fengið leiðréttingu sinna mála og taldi ekki tilefni til að aðhafast frekar.