Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6493/2011)

Hinn 22. júní 2011 kvartaði A til umboðsmanns Alþingis yfir því að málskotsnefnd LÍN hefði ekki enn úrskurðað í máli sínu. Nefndin hafði tilkynnt A með bréfi, dags. 14. apríl 2011, að mál hennar hefði verið tekið til endurskoðunar og að búast mætti við niðurstöðu málsins innan fárra vikna.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. ágúst 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Með skýringum málskotsnefndarinnar til umboðsmanns vegna málsins fylgdi bréf til A, dags. 28. júlí 2011, þar sem kom fram að meðferð málsins hefði m.a. dregist vegna nauðsynjar á frekari upplýsingaöflun og að ákvörðunar væri að vænta þegar málið teldist upplýst með fullnægjandi hætti. Í ljósi þess að A hafði verið tilkynnt um meðferð málsins lauk umboðsmaður athugun sinni en tók fram að teldi A frekari óeðlilegar tafir verða á afgreiðslu málsins gæti hún leitað til sín á nýjan leik. Umboðsmaður ritaði málskotsnefndinni jafnframt bréf og kom þeirri ábendingu á framfæri að það hefði verið í betra samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga að tilgreina afmarkaðri og skýrari tímamörk til viðmiðunar um hvenær stefnt væri að því að ljúka málinu í bréfinu til A. Þá tók umboðsmaður fram að þegar ekki væri tilgreint í tilkynningu hvenær ákvörðunar væri að vænta bæri engu að síðar að senda málsaðila nýja tilkynningu um stöðu málsins þegar liðinn væri sá tími sem aðili mætti almennt vænta þess að tæki að afgreiða erindið.