Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6531/2011)

Hinn 12. júlí 2011 kvartaði A yfir því að erindi sem hann sendi mönnunarnefnd skipa A um aukin vélstjórnarréttindi í maí 2010 hefði ekki verið afgreitt.

Umboðsmaður Alþingis lauk meðferð sinni á málinu með bréfi, dags. 31. ágúst 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Í skýringum mönnunarnefndar skipa til umboðsmanns vegna málsins kom fram að 21. maí 2010 hefði nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að verða við erindinu þar sem A hefði ekki lokið sveinsprófi í viðurkenndri málmiðnaðargrein og A hefði verið gerð grein fyrir niðurstöðunni. Hins vegar hefði orðið dráttur á því að veita A leiðbeiningar um að ljúka sveinsprófi. Þá hefði komið fram í frekari samskiptum A og mönnunarnefndar að A teldi brotið á sér þar sem nefndin hefði úrskurðað með öðrum hætti í sambærilegu máli. Aðstæður í því máli hefðu hins vegar ekki sambærilegar þar sem aðili þess máls hefði lokið sveinsprófi. Í athugasemdum A og samtali við starfsmann umboðsmanns kom fram að honum hefði ekki verið ljóst að málin væru ekki sambærileg fyrr en honum var veittur kostur á að gera athugasemdir við skýringar mönnunarnefndar til umboðsmanns. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins en ritaði mönnunarnefnd bréf og gerði athugasemdir við að mönnunarnefnd hefði ekki upplýst A um hvers vegna málsatvik í hans máli væru ekki sambærileg við málsatvik í máli því sem hann vísaði til máli sínu til stuðnings. Umboðsmaður mæltist til þess að mönnunefnd gætti þess framvegis betur að veita málsaðilum nauðsynlegar leiðbeiningar og skýringar eins fljótt og kostur væri.