Almannatryggingar. Félagsleg aðstoð.

(Mál nr. 6250/2010)

A, sem var kvæntur en ekki bjó ekki með eiginkonu sinni af ástæðum sem mátti rekja til langvarandi veikinda hennar, kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A um greiðslu heimilisuppbótar á þeim grundvelli að hann væri ekki einhleypingur í skilningi 8. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um mál A með bréfi, dags. 30. september 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður taldi sér ekki unnt að gera athugasemd við að úrskurðarnefndin hefði lagt almennan málskilning til grundvallar og talið að með einhleypingi væri átt við einstakling sem hvorki væri í sambúð né hjúskap. Niðurstaða umboðsmanns var því að úrskurður nefndarinnar væri byggður á réttum lagagrundvelli. Þá taldi umboðsmaður að 16. gr. reglugerðar nr. 595/1997, þar sem fram kom að heimilt væri að greiða einstaklingi í hjúskap heimilisuppbót væri maki hans vistaður á stofnun til frambúðar, ætti ekki við í máli A. Umboðsmaður ákvað hins vegar að rita velferðarráðherra bréf og koma þeirri ábendingu á framfæri að gildandi fyrirkomulag fæli í sér ákveðinn aðstöðumun á milli annars vegar einstaklings sem býr heima og á maka sem er vistaður til frambúðar á stofnun og hins vegar einstaklings sem á maka sem þarf að dvelja um lengri tima og jafnvel varanlega í öðru sveitarfélagi vegna veikinda þar sem hann sækir endurhæfingu og þjálfun. Umboðsmaður taldi, m.a. í ljósi 65. og 76. gr. stjórnarskrár, ekki útilokað að um slíkan aðstöðumun væri ræða að stjórnvöld þyrftu skýra lagaheimild til að gera mun af þessu tagi með setningu stjórnvaldsfyrirmæla. Umboðsmaður kom því þeirri ábendingu á framfæri við velferðarráðuneytið að við yfirstandandi endurskoðun laga um almannatryggingar og félagslega aðstoð yrði hugað að ákvæði 8. gr. laga nr. 99/2007 með tilliti til afmörkunar á hugtakinu einhleypingur og að tekin yrði afstaða til þess hvort við endurskoðunarvinnuna ætti að huga að breytingu á ákvæði gildandi reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri.