Atvinnuleysistryggingar. Atvinnuleysisbætur.

(Mál nr. 6398/2011)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þar sem staðfest var ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fresta greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar í 40 daga sumarið 2010 á grundvelli þess að hún hefði hætt námi án gildra ástæðna. Í kvörtun A kom fram að hún teldi sig ekki hafa hætt í námi heldur hefði hún lokið þriðja námsári í iðnnámi sem hún stundaði á vorönn 2010 og við hefði átt að taka námssamningur. Hún hefði hins vegar ekki fengið samning á höfuðborgarsvæðinu og því flutt í annað sveitarfélag þar sem hún hefði komist á samning í byrjun október það ár. Hún hefði verið án atvinnu frá skólalokum til þess tíma.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á erindi A með bréfi, dags. 23. september 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður taldi að verkþjálfun og starfsþjálfun á vinnustað væri nám í skilningi atvinnuleysistryggingalöggjafarinnar. Hann taldi því að A hefði ekki lokið eða hætt námi sumarið 2010 heldur haldið því áfram þegar hún hóf vinnustaðanám í október það ár. Í skýringum úrskurðarnefndarinnar til umboðsmanns vegna málsins kom hins vegar fram að Vinnumálastofnun hefði ekki haft aðrar upplýsingar en að A hefði hætt námi og væri í almennri atvinnuleit. Hefði legið fyrir að hún hygðist halda áfram námi haustið 2010 hefði hún ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum, en námsmenn teljast ekki í virkri atvinnuleit í námsleyfi milli anna og eru því ekki tryggðir. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við að úrskurðarnefndin hefði staðfest niðurstöðu Vinnumálastofnunar og hafði þar jafnframt í huga að úrlausn nefndarinnar laut einkum að því að meta hvort Vinnumálastofnun hefði réttilega lagt til grundvallar, í ljósi þeirra gagna sem fyrir lágu hjá stofnuninni þegar ákvörðun í málinu var tekin, að A hefði hætt námi a.m.k. tímabundið. Með vísan til alls þessa og í ljósi þess að umsókn A um atvinnuleysisbætur var samþykkt þrátt fyrir að greiðslum hefði verið frestað um tiltekinn tíma taldi umboðsmaður rétt að ljúka athugun sinni á málinu. Hann ákvað þó að rita úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða bréf þar sem hann gerði athugasemdir við það að erindi nefndarinnar til Vinnumálastofnunar vegna málsins hefði ekki verið ítrekað þegar svör bárust ekki innan tilgreindra tímamarka, en það varð til þess að málshraði fór fram úr lögboðnum málsmeðferðartíma, og benti nefndinni á að taka til athugunar að setja sér verklagsreglur eða viðmið um málshraða, s.s. um ítrekun erinda til umsagnaraðila. Þá taldi umboðsmaður að það hefði verið í betra samræmi við málshraðareglu 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga að tilkynna A um það þegar ljóst var að ekki yrði unnt að ljúka málinu innan tveggja mánaða frá móttöku þess, um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar væri að vænta.