Atvinnuleysistryggingar. Atvinnuleysisbætur.

(Mál nr. 6488/2011)

A kvartaði yfir fyrirhugaðri niðurfellingu á greiðslum atvinnuleysisbóta til sín. Í kvörtuninni kom fram að ástæða niðurfellingarinnar væri að A hefði fengið greiddar atvinnuleysisbætur á árinu 2007 og því væri bótatímabil hans styttra en þeirra sem misstu fyrst vinnuna í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 13. september 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður rakti efni bráðabirgðaákvæðis við lög nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, þar sem fram kemur að sá sem telst tryggður og hefur í fyrsta skipti fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá og með 1. mars 2008 eða síðar eigi rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í tólf mánuði til viðbótar frá þeim degi er þriggja ára tímabil samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laganna lýkur. Umboðsmaður benti á að kvörtun A lyti þannig að fyrirkomulagi sem löggjafarvaldið hefði ákveðið að skyldi gilda á þessu sviði. Í ljósi þess að starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, væri það almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Umboðsmaður lauk því málinu en ritaði Vinnumálastofnun bréf og gerði athugasemdir við að undir tölvubréf stofnunarinnar til A ritaði „starfsfólk greiðslustofu“ og því væri ekki hægt að sjá af samskiptunum hvaða starfsmaður stofnunarinnar ætt í hlut. Umboðsmaður taldi í betra samræmi við sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti nöfn starfsmanna kæmu fram í samskiptum við málsaðila og hann gæti þannig sjálfur metið hvort hann teldi vanhæfisástæður stjórnsýslulaga eiga við um þá.