Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Atvinnubílstjórar.

(Mál nr. 6617/2011)

A kvartaði yfir 1. mgr. 3. gr. laga nr. 134/2001, um leigubifreiðar, þar sem m.a. kemur fram að allar leigubifreiðar á takmörkunarsvæði skuli hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð sem fengið hefur starfsleyfi Vegagerðarinnar.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi, dags. 14. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður tók fram að starfssvið sitt tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3.gr. laga nr. 85/1997, og þar með hver hefði orðið niðurstaða Alþingis um lagasetningu eða hvernig til hefði tekist í þeim efnum. Umboðsmaður taldi kvörtun A ekki heldur gefa sér tilefni til að taka til athugunar að eigin frumkvæði hvort meinbugir væru á lögunum, sbr. 5. og 11. gr. laga nr. 85/1997. Þar sem kvörtun A fylgdu bréfaskipti við Vegagerðina þar sem A var gert að leggja inn starfsleyfi sitt til leigubifreiðaaksturs benti umboðsmaður á að hann gæti borið þá ákvörðun undir innanríkisráðuneytið, sbr. 4 gr. laga nr. 134/2001. Teldi hann sig órétti beittan að fengnum úrskurði ráðuneytisins gæti hann leitað til sín að nýju.