Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi.

(Mál nr. 6624/2011)

A kvartaði yfir ákvæðum laga sem gera það m.a. að skilyrði þess að maður verði skipaður í starf skiptastjóra að hann sé orðinn 25 ára gamall. Í kvörtun A kom fram að hann myndi að öllum líkindum ekki hafa náð þeim aldri þegar hann lyki fullnaðarprófi í lögfræði og öðlaðist réttindi sem héraðsdómslögmaður og að hann teldi aldursskilyrðið brjóta í bága við meðalhófsreglu og fela í sér mismunun og þar með væri um meinbugi á lögum að ræða sem líklega myndu skerða atvinnumöguleika sína.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um erindið með bréfi, dags. 29. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður tók fram að starfssvið sitt tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3.gr. laga nr. 85/1997, og þar með hver hefði orðið niðurstaða Alþingis um lagasetningu eða hvernig til hefði tekist í þeim efnum, þ.m.t. hvort lög væru í andstöðu við stjórnarskrá. Þá væri ekki hægt að kvarta beinlínis vegna meinbuga sem fólk teldi vera á lögum heldur ákvæði umboðsmaður að eigin frumkvæði hvort hann nýtti heimild sína til að vekja athygli Alþingis á slíku. Þar sem umboðsmanni var ekki kunnugt um dóma Hæstaréttar Íslands eða annarra úrskurðaraðila þar sem lagt er til grundvallar að lagaákvæði af þessu tagi séu í ósamræmi við jafnræðisreglur eða brjóti gegn atvinnufrelsi og einnig í ljósi þess að A hafði ekki enn lokið laganámi og kvörtun hans sneri því að réttindum sem væru háð ókomnum atvikum taldi umboðsmaður ekki tilefni til að nýta heimildir sínar til að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði. Hann benti A hins vegar á að ef hann vildi vekja athygli löggjafans á sjónarmiðum sínum um æskilegar breytingar á gildandi löggjöf gæti hann freistað þess að senda erindið þingmanni eða ráðherra.