Fangelsismál. Agaviðurlög.

(Mál nr. 6571/2011)

Félagasamtökin A leituðu til umboðsmanns Alþingis með erindi sem umboðsmaður skildi á þá leið að óskað væri almennrar athugunar á framkvæmd agaviðurlaga í íslenskum fangelsum og, eftir atvikum, löggjöf um fullnustu refsinga.

Umboðsmaður Alþingis taldi ekki tilefni til að aðhafast vegna erindisins og lauk umfjöllun sinni um það með bréfi, dags. 14. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Þar sem erindið var nokkuð almenns eðlis og í ljósi ákvæða í lögum um starfssvið umboðsmanns Alþingis taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast sérstaklega á grundvelli heimilda sinna til að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði. Þar hafði umboðsmaður einnig í huga aukinn fjölda kvartana hjá embættinu á sama tíma og niðurskurður hefði orðið á fjárveitingu til embættisins, en það hefði haft þau áhrif að hann fjallaði aðeins um mál að eigin frumkvæði í undantekningartilvikum. Umboðsmaður tók þó fram að hann myndi hafa erindið til hliðsjónar ef síðar gæfist tilefni til að fjalla almennt um agaviðurlög í fangelsum og jafnframt að hann ráðgerði að heimsækja fangelsið að X í haust og myndi þá óska eftir fundi með A. Í framhaldi af heimsókninni yrði tekin afstaða til þess hvort fyrir hendi væru það knýjandi ástæður að rétt væri að taka tiltekin atriði varðandi málefni fanga til athugunar að eigin frumkvæði. Að lokum benti umboðsmaður á að ákvarðanir um agaviðurlög og vistun í öryggisklefa sættu kæru til innanríkisráðuneytisins en sérhverjum fanga sem teldi sig rangsleitni beittan væri heimilt að leita til sín með sérstaka kvörtun að fenginni afstöðu ráðuneytisins, teldi hann sig enn beittan rangsleitni og að fullnægðum skilyrðum í lögum.