Fangelsismál. Símtöl.

(Mál nr. 6312/2011)

A kvartaði yfir afgreiðslu dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins á erindi er laut að því að hann hefði ekki fengið skrifleg svör við erindi til fangelsismálastofnunar þar sem hann fór fram á frestun á afplánun refsingar. Hann kvartaði einnig yfir þeirri niðurstöðu ráðuneytisins að hann hefði ekki verið hindraður í að hringja í Mannréttindadómstól Evrópu. Þá kvartaði hann yfir því að geta ekki átt óhindruð samskipti við erlenda lögfræðinga sína. Einnig kvartaði hann yfir töfum á svörum ráðuneytisins við erindinu.

Umboðsmaður Alþingi lauk athugun sinni á kvörtun A með bréfi, dags. 14. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Í bréfi dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins til A vegna erindi hans um frestun á afplánun kom fram að ráðuneytið teldi fangelsismálastofnun hafa borið að svara erindinu skriflega, jafnvel þótt hann hefði hafið afplánun þegar erindið kom til vitneskju hlutaðeigandi starfsmanns. Þá beindi ráðuneytið tilmælum til stofnunarinnar um að sjá til þess að netfang hennar yrði vaktað óháð sumarleyfum starfsmanna. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að fjalla frekar um þetta atriði í kvörtun A. Hann benti A jafnframt á að ef hann teldi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þessarar málsmeðferðar fangelsismálastofnunar yrði það að vera verkefni dómstóla að leysa úr því álitaefni. Með hliðsjón af aðstæðum í máli A og úrræðum sem honum stóðu til boða til að koma kæru á framfæri við Mannréttindadómstól Evrópu taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að hann hafði ekki getað óhindrað haft samskipti við Mannréttindadómstól Evrópu í andstöðu við lög. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að halda áfram athugun á þessum þætti kvörtunar A. Enn fremur taldi umboðsmaður ekki verða ráðið af gögnum málsins að A hefði leitað til fangelsismálastofnunar eða innanríkisráðuneytisins og óskað eftir endurgreiðslu á 2000 kr. sendingarkostnaði vegna bréfaskipta við mannréttindadómstólinn eða að hann hefði óskað eftir því að senda slíkt bréf í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga nr. 49/2005 en verið synjað um það. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 fjallaði umboðsmaður því ekki um það en benti A á að kysi hann að leita innanríkisráðuneytisins vegna þessa atriðis gæti hann leitað til sín á ný yrði hann ósáttur við afgreiðslu ráðuneytisins. Varðandi þann þátt samskipti A við aðila er hann sagði vera erlenda lögmenn sín tók umboðsmaður fram að hann gerði ekki athugasemdir við að fangelsisyfirvöld færu fram á staðfestingu á að viðkomandi einstaklingar væru lögmenn. Þar sem umræddir einstaklingar, B og C, hefðu sagst ætla að senda slíka staðfestingu og í ljósi þess að í kvörtun A og athugasemdum hans var ekki rökstutt að aðstæður hans væru með þeim hætti að slíkt fæli í sér óhóflega byrði fyrir hann eða lögmenn hans taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að brotið hafi verið á A að þessu leyti. Að virtum skýringum sem bárust frá innanríkisráðuneytinu taldi umboðsmaður sig að lokum ekki hafa forsendur til að fullyrða að málshraðaregla 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga hefði verið brotin í máli A, en erindi hans barst í september 2010 og var svarað í desember sama ár.