Fjarskipti.

(Mál nr. 6183/2010)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála þar sem staðfest var ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar, annars vegar um að hafna kröfu um að tryggt yrði að aðrir en A sendu ekki út á tiltekinni útvarpstíðni og hins vegar að stofnunin afturkallaði úthlutun á sömu tíðni til B.

Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 28. september 2011, með vísan til c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Á meðan á athugun umboðsmanns á málinu stóð höfðaði A mál á hendur íslenska ríkinu til greiðslu skaðabóta vegna ákvörðunartöku umræddra stjórnvalda. Umboðsmaður taldi því ekki rétt að halda áfram athugun sinni að svo stöddu en benti A á að yrði dómsmálinu vísað frá og ekki tekin afstaða til þeirra atriða sem kvörtunin lyti að gæti hann að sjálfsögðu snúið sér til sín á ný og yrði þá ekki litið svo á að ársfrestur samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 væri úti. Í tilefni af upplýsingum sem A sendi umboðsmanni um samskipti sín við starfsmenn fjölmiðlanefndar og Póst- og fjarskiptastofnunar tók umboðsmaður jafnframt fram að ef hann teldi sig hafa verið beittan rangsleitni með þeim gæti hann sent sérstaka kvörtun þar að lútandi.