Gjafsókn.

(Mál nr. 6086/2010)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun yfir synjun á beiðni hennar um endurupptöku á máli þar sem henni var synjað um gjafsókn vegna málarekstrar fyrir Hæstarétti með vísan til umsagnar gjafsóknarnefndar sem taldi ekki nægilegt tilefni til áfrýjunar á dómi héraðsdóms í málinu í skilningi 126. gr. laga nr. 91/1991. Með dómi Hæstaréttar í málinu var A hins vegar dæmd greiðsla í samræmi við varakröfu og í kjölfarið óskaði hún eftir endurupptöku málsins. Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið synjaði um endurupptöku málsins með vísan til umsagnar gjafsóknarnefndar þar sem fram kom að málflutningsþóknun skyldi ákveðin í dómi og því yrði gjafsókn ekki veitt eftir að niðurstaða dóms liggur fyrir.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um kvörtun A með bréfi, dags. 30. september 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður taldi að endurupptökubeiðni A hefði byggst á því að upphaflegt mat gjafsóknarnefndar á tilefni til málshöfðunar hefði verið rangt. Athugun umboðsmanns beindist því að því hvort borið hefði að endurupptaka málið á grundvelli óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttarins og þá á þeim grundvelli að umsögn gjafsóknarnefndar í málinu hefði ekki verið í samræmi við lög. Af umsögninni taldi umboðsmaður verða ráðið að nefndin hefði horft til niðurstöðu héraðsdóms í málinu, sem byggðist á mati á þeim sönnunargögnum sem lögð voru fyrir dóminn, og hefði ekki talið að nokkrar líkur væru á því að málið ynnist fyrir dómi. Umboðsmaður taldi að stjórnvöldum yrði að játa nokkurt svigrúm við mat á því hvort nægilegt tilefni væri til áfrýjunar, svo lengi sem það mat byggðist á málefnalegum sjónarmiðum og væri forsvaranlegt. Með tilliti til þess og eftir að hafa farið yfir umsögn gjafsóknarnefndar og þau gögn sem lágu fyrir nefndinni taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að við upphaflega höfnun gjafsóknarnefndar á veitingu gjafsóknar til A hefðu verið gerð mistök. Umboðsmaður taldi því ekki forsendur til athugasemda við synjun á beiðni A um endurupptöku málsins. Umboðsmaður ákvað hins vegar að rita innanríkisráðuneytinu bréf þar sem fram kom að hann féllist ekki á þá afstöðu innanríkisráðuneytisins og gjafsóknarnefndar að óheimilt væri að endurupptaka gjafsóknarmál um eftir að dómur Hæstaréttar hefði fallið í máli sem gjafsóknarbeiðni varðaði.