Heilbrigðismál. Vísindarannsóknir.

(Mál nr. 6481/2011)

A kvartaði yfir úrskurðum heilbrigðisráðuneytisins þar sem stjórnsýslukærum hans frá 31. október 2008 vegna ákvarðana Vísindasiðanefndar var vísað frá á þeim grundvelli að kærufrestir væru liðnir. Annars vegar laut kvörtunin að forsendum úrskurðanna og hins vegar að málsmeðferðartíma.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um kvörtun A með bréfi, dags. 14. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður taldi verða ráðið af gögnum málsins að A hefði verið tilkynnt um umræddar ákvarðanir annars vegar í síðasta lagi í lok júní 2007 og hins vegar í síðasta lagi í lok október 2007. Í ljósi þess að samkvæmt 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga skal kæru ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila taldi umboðsmaður að ráðuneytinu hefði ekki verið skylt að lögum að sinna kærunum. Hann taldi því ekki forsendur til athugasemda við ákvarðanir ráðuneytisins um að vísa málunum frá. Þá taldi umboðsmaður kvörtun A ekki gefa sér tilefni til að taka til athugunar að eigin frumkvæði fyrirkomulag við leyfisveitingar vegna vísindarannsókna á heilbrigðissviði. Umboðsmaður lauk málinu en ákvað að rita velferðarráðherra bréf þar sem hann gerði athugasemdir við að tæpir tuttugu mánuðir hefðu liðið frá því að A lagði fram kærur sínar þar til ráðuneytið vísaði þeim frá. Umboðsmaður taldi að borið hefði að gæta betur að málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga í málinu og kom þeirri ábendingu á framfæri að æskilegt væri að settar yrðu viðmiðanir og/eða verklagsreglur um tímamörk fyrstu athugunar stjórnsýslumála, hefði það ekki þegar verið gert.