Húsnæðismál. Íbúðalánasjóður.

(Mál nr. 6580/2011)

A kvartaði yfir synjun Íbúðalánasjóðs á umsókn hennar og eiginmanns hennar um niðurfærslu láns í 110% veðsetningarhlutfall. Í kvörtuninni kom einnig fram að A teldi lánaúrræði húsnæðiseigenda óréttlát og að fólki sem sækti um niðurfærslu væri mismunað þar sem niðurfelling réðist af því hvar lánin væru tekin.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi, dags. 20. september 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Vegna upplýsinga sem komu fram að samskipti A við B hf. og C hf. tók umboðsmaður fram að starfssvið umboðsmanns Alþingis tæki ekki til einkaréttarlegra aðila en benti A á að hún gæti freistað þess að koma ábendingum sínum um mismunun á framfæri við umboðsmann skuldara. Þar sem af gögnum málsins var ljóst að A hefði leitað til umboðsmanns skuldara vegna máls síns tók umboðsmaður einnig fram að væri hún ósátt við afgreiðslu þess embættis á máli sínu gæti hún leitað til sín með sérstaka kvörtun þar að lútandi. Hvað varðaði synjun Íbúðalánasjóðs á umsókn A um niðurfærslu, þá benti umboðsmaður á að úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hefði með úrskurði fellt ákvörðunina úr gildi og lagt fyrir sjóðinn að taka málið aftur til efnislegrar meðferðar og að samkvæmt gögnum málsins hefði það verið tekið til athugunar hjá sjóðnum. Umboðsmaður tók fram að ekki væri gert ráð fyrir um hann fjallaði um mál sem væru enn til meðferðar hjá stjórnvöldum og taldi því ekki uppfyllt skilyrði að lögum til að fjalla um málið, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, en færi svo að A leitaði aftur til úrskurðarnefndarinnar vegna nýrrar ákvörðunar Íbúðalánasjóðs í málinu og yrði ósátt við niðurstöðu nefndarinnar gæti hún leitað til sín á ný með sérstaka kvörtun. Þá gæti hún leitað til sín á ný drægist afgreiðsla Íbúðalánasjóðs á málinu úr hófi fram.